149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:54]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Ég hjó sérstaklega eftir því þegar hann velti því upp að stefnubreyting hefði orðið hjá stjórnarflokkunum, þ.e. þingflokkum stjórnarflokkanna. Mig langar aðeins að spyrja um túlkun hans á því af hverju það hafi gerst hreinlega. Hvað varð til þess að þeir skiptu um skoðun?

Það eru fleiri atriði, eins og spurningar um eigin sannfæringu þingmanns. Við greiðum atkvæði hér og vinnum með okkar góðu sannfæringu í farteskinu. Við höfum ítrekað talað um það í ræðustól að við eigum að flýta okkur hægt og við eigum að skoða staðreyndir máls. Mér finnst það ríma mjög vel við það að við viljum síðan taka ákvörðun á þeim upplýsingum sem við höfum aflað okkur í meðförum þingsins, sérstaklega í svona stóru og veigamiklu máli.

Ég gef mér að hv. þingmaður sé sama sinnis hvað varðar það að ég stend hér og ég mun vilja allar þær upplýsingar sem ég get fengið áður en ég tek mína ákvörðun. En ég spyr alla vega sérstaklega um það hvað hafi valdið þessari stefnubreytingu hjá stjórnarflokkunum hvað varðar orkupakka þrjú?