149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:56]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur fyrir andsvarið og spurningarnar.

Talandi um stefnubreytingu flokkanna þá er það greinilegt miðað við að lesa ályktanir stjórnarflokkanna í þessu máli, eða Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem eru báðir í ríkisstjórn, að uppi er í dag algjör U-beygja frá þeim ályktunum og það vekur náttúrlega furðu mína og okkar sem höfum verið að fjalla um málið. En hvers vegna þessi U-beygja hefur verið tekin er manni algjör ráðgáta og er náttúrlega gríðarlega óheiðarleg framkoma við grasrót þeirra flokka og þá sem hafa kosið flokkana. Við erum í umboði okkar kjósenda vegna þeirrar stefnu sem við gefum út og þeirra ályktana líka sem gefnar eru út á flokksþingum og eftir því skal maður vinna. Og svona U-beygja er eitthvað sem ég kann ekki skýringar á.

En við höfum verið að velta vöngum yfir þessu í umræðunni. Sú skoðun hefur komið fram að sú samsetning sem er á þeirri ríkisstjórn sem er við stjórn í dag er tíðrædd breið skírskotun yfir hinn pólitíska öxul frá hægri til vinstri yfir miðju og þegar slíkir flokkar eiga í samstarfi þá þarf að miðla málum ansi mikið, þannig að (Forseti hringir.) stefnumál hvers flokks fyrir sig ná sennilega bara ekkert í gegn oft og tíðum.