149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:03]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var þörf ræða sem hv. þingmaður kom fram með. Það er mjög þarft að draga fram í dagsljósið hvernig núverandi stjórnarflokkar hafa svikið áform sín sem fram komu í kosningabaráttu þeirra og umpólast. Að mörgu leyti má segja, af því það kom fram áðan að þetta eru ólíkir flokkar sem náðu saman um lítið, að það sé eins og þessir flokkar hafi dregið það versta fram hver í öðrum. Þess vegna var ágætt að hv. þingmaður skyldi draga fram hvernig þeir hafa brennt brýr að baki sér og svikið kjósendur sína í þessu máli sem og öðrum, vegna þess að það bauð enginn af stjórnarflokkunum sig fram með það á stefnuskrá sinni fyrir kosningar að innleiða þennan orkupakka þrjú. Spurningin hlýtur að snúast um það hvers vegna tveir stjórnarflokkanna snúa baki við annars vegar landsfundarsamþykkt og hins vegar miðstjórnarsamþykkt, sem eru náttúrlega vettvangar þessara tveggja flokka þar sem grasrót þeirra eða bakland kemur saman og mótar stefnuna áfram. Það er því ekki þingflokka flokkanna í sjálfu sér að móta stefnu til framtíðar heldur þessara flokksapparata.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig hann líti á það ástand að þarna er greinilega vík milli þingflokka ríkisstjórnarinnar og baklands þeirra eða hins almenna félagsmanns.