149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:06]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir þetta andsvar. U-beygja eða svik við áform sín, alla vega er það U-beygja sem tekin hefur verið í þessum málum hjá stjórnarflokkunum. Það er rétt að enginn stjórnarflokkanna bauð sig fram til að framfylgja þeirri U-beygju heldur hinu, eins og kom fram í lestri mínum á ályktun þeirra á fyrri stigum, að það væri þeirra stefna.

Þingmaðurinn spyr um gjá eða bil eða vík á milli vina eða grasrótar og flokka. Ég hlýt að líta það alvarlegum augum með hag grasrótar eða almennings í huga sem hafa fylgt þessum flokkum en það gæti kannski líka vel verið pólitískt að ég fylltist einhverri þórðargleði yfir því vegna þess að það er vatn á myllu okkar sem höldum stefnu okkar áfram í þeim málum og gjöldum varhuga við þeirri leið sem verið er að fara. Við höfum verið einn flokka í þeirri baráttu undanfarna daga og vikur og erum óþreytt áfram í því eins lengi og við þurfum.

En grasrót flokkanna sem eru í ríkisstjórn hlýtur að vera orðin ansi tætt. Maður heyrir það líka og les. Áhyggjurnar hljóta að vera miklar þar á bæ.