149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:08]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Jú, það hlýtur að vera og má til sanns vegar færa vegna þess að nógu mikið verður maður var við að stuðningsmenn þessara flokka hafa sig mjög í frammi þar sem maður á leið um til að lýsa því yfir hvílík vonbrigði það séu að flokkarnir sem þeir hafa kannski stutt áratugum saman standi ekki við það sem þeir hafa áður lofað.

Mér fannst hv. þingmaður draga ágætlega fram muninn á þeim þremur stjórnarflokkum sem hafa svikið loforð sín sem þeir gáfu fyrir kosningar og gengið á bak orða sinna gagnvart félagsmönnum sínum og flokksmönnum, andstætt við það að sá flokkur sem hér stendur nú í andófi fyrir því að þriðji orkupakkinn verði innleiddur í íslenskan rétt stendur við það sem fram kom í kosningastefnuskrá hans, stefnuskrá flokksins, um það að standa vörð um íslenska hagsmuni í orkumálum.

Það sem mig myndi langa til að heyra frá hv. þingmanni er hverjar hann telji að gætu orðið afleiðingarnar af svikum þessara flokka, bæði gagnvart loforðum sínum fyrir kosningar og flokksmönnum sínum. Hvaða afleiðingar gæti þetta haft til skamms tíma og lengri tíma? Það væri fengur að því ef hv. þingmaður myndi fara yfir það með okkur í örfáum orðum.