149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:22]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einmitt ágætispunktur að fyrirvararnir hafa ekki fundist þrátt fyrir ítrekaða leit. Það er því sjálfsagt rétt hjá hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni að þeir halda ekki vatni og munu ekki skipta máli þegar við ræðum um fyrirhugaða lagningu sæstrengs. Það er akkúrat kjarni málsins sem þessir fjórir, fimm lögmenn hafa komist að, að svona yfirlýsingar, fréttatilkynningar eða hvað við viljum kalla það, munu ekki halda vegna þess að þetta eru í rauninni bara pólitískar yfirlýsingar, viljayfirlýsingar, sameiginlegur skilningur og hvaða orð eru notuð, meðan við erum ekki búin að setja þetta í lögformlegan búning mun það ekki skipta máli. Kannski er kjarni málsins að það hefur ekki verið settur fyrirvari á lögformlegan hátt við nokkurn skapaðan hlut, vegna þess að vitað er að þó svo að þetta snerti ekki orkupakka þrjú beint mun það alls ekki halda vatni þegar um verður að ræða hugsanlega lagningu sæstrengs hingað.

Mér finnst mjög gilt sjónarmið að velta því ítrekað upp og vil þá velta upp spurningu til hv. þingmanns vegna Brexit. Það hefur snert mig þannig að Brexit og útganga Breta þar gæti haft gríðarleg áhrif á framvindu mála. Hvernig yrði sæstrengshugmyndum þá háttað og hvaða áhrif kynni það að hafa?