149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:24]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig fyrirliggjandi að ef Bretland væri ekki lengur partur af Evrópusambandinu myndi málið væntanlega líta öðruvísi við og þá væri þriðji orkupakkinn í sjálfu sér lítils virði. En það er hins vegar annað sem hangir yfir sem við vitum ekki hvort af verður og það er að Skotar hafa lýst því yfir að þeir vilji vera áfram innan Evrópusambandsins, þannig að óvissan er á allar hliðar. Það er einmitt þess vegna sem er svo nauðsynlegt fyrir okkur að vera með það sem við myndum kalla allt á hreinu.

Það er maður undir manns hönd búinn að ganga fyrir skjöldu og vara stjórnvöld við og benda ríkisstjórninni og ríkisstjórnarflokkunum á að fyrirvarar þeir sem settir eru séu ófullnægjandi og einu fyrirvararnir sem dugi séu þeir fyrirvarar sem Evrópusambandið eða sameiginlega nefndin samþykki sjálf. Búið er ráðleggja ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum að hafna pakkanum og senda hann í sáttameðferð í sameiginlegu nefndinni. Ríkisstjórnin skirrist við.

Það sem gerist nú þegar við höfum, einn flokka, verið að reyna að koma vitinu fyrir meiri hluta Alþingis að þessu leyti og benda á að þetta sé það sem meiri hluti þjóðarinnar vill ekki samkvæmt skoðanakönnunum, þ.e. vill ekki þriðja orkupakkann, þá þykir manni undarlegt að viljinn til að gera þetta axarskaft sé svo einbeittur að menn hlusta ekki á neitt eða neina. Við höfum tjáð að auðvitað þarf fólk ekki að hlusta á okkur en því væri kannski betra (Forseti hringir.) að hlusta á færustu sérfræðinga um þetta mál.