149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:27]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir ræðuna. Hann kom víða við og velti upp áhyggjum um fyrirvara og það hald eða haldleysi sem þeim fylgja, og eins því hvað muni ske ef þessi pakki verður innleiddur. Ég er hér á mælendaskrá á eftir og ætla í ræðu minni að koma inn á sviðsmyndarspekúlasjónir í því sambandi. Og svo ég uppljóstri smávegis um ræðuna koma fram fréttir sem borist hafa um málið. Það hefur sýnt sig að í þessari umræðu hafa ýmsar nýjar fréttir borist í því sambandi, þar á meðal er fyrirtækið Atlantic SuperConnection, sem hefur lýst áformum sínum um að framleiða sæstreng á Englandi og leggja hann í framhaldi af því til Íslands. Það er bara að bíða eftir að þessi pakki fari í gegn. Það kom upp í huga mér þegar þingmaðurinn flutti ræðu sína um þessar vangaveltur. Í því sambandi hafa fyrirvararnir ekki neina þýðingu, því að eins og þingmaðurinn kom inn á eru ekki þeir ekki túkalls virði.

Í framhaldi langar mig að spyrja þingmanninn: Er ekki akkúrat þetta sem er að koma í ljós við þessa þrotlausu umræðu sem við höfum staðið hér í og sem hefur, vil ég vil meina, dýpkað málið, þ.e. að orkupakki þrjú hefur áhrif hér á landi, öfugt við það sem haldið (Forseti hringir.) hefur verið fram af fylgismönnum hans? Hann mun hafa áhrif ef hann verður innleiddur.