149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:29]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Jú, mikið rétt. Eins og ég sagði í ræðu minni eru það ýmis atriði sem ég taldi upp sem okkur voru ekki kunn fyrir hálfum mánuði eða tíu dögum síðan, sem nú hafa komið á daginn. Það er alveg ljóst að við hefðum að óbreyttu, þ.e. ef ríkisstjórnarflokkarnir og fylgifiskar þeirra, meiri hlutinn á Alþingi, hefðu haft sitt fram þá sætum við uppi með þriðja orkupakkann og þær nýjungar sem nú eru komnar í ljós, þ.e. að orkupakki fjögur er kominn fram, að þetta fyrirtæki úti í Bretlandi er búið að fjármagna sæstreng og þess albúið að leggja hann. Og í þriðja lagi, sem var kannski ljóst að hluta fyrir dögum síðan en hefur styrkst, þ.e. að þeir fyrirvarar sem settir eru, eru alls ófullnægjandi.

Það er svo rík ábyrgð fyrir þá sem taka þessa ákvörðun sem fylgir því að halda sig við hana. En eftirköstin eða afleiðingarnar munu væntanlega ekki koma fram fyrr en að einhverjum árum liðnum. Það er kannski það alvarlega, að áhrifin af þessum gjörningi, jafn gallaður og hann er, bitnar ekki á okkur sem slíkum, hann bitnar á börnunum okkar. Hann bitnar á barnabörnunum okkar. Það er kannski það alvarlega í þessu máli og það er kannski það fyrst og fremst sem þessi hópur sem hér hefur staðið og reynt að malda í móinn, er að reyna að koma í veg fyrir með öllum hugsanlegum ráðum.