149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:33]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. utanríkisráðherra hefur, að eigin sögn, átt viðræður við Breta um hvað gerast muni þegar og ef Bretar yfirgefa Evrópusambandið. Án þess að ég hafi sökkt mér ofan í það myndi ég halda að það myndi flækja málið.

En eins og ég sagði í svari mínu áðan við spurningu hv. þm. Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, þá hafa Skotar boðað þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi veru í Evrópusambandinu. Verði endastöð sæstrengsins í Skotlandi, en það virðist vera meirihlutavilji núna fyrir því að Skotar haldi sig í Evrópusambandinu, kann svo að fara að við verðum í sömu sporum hvað þetta varðar.

Sjálfur myndi ég að lítt eða óathuguðu máli halda að útganga Breta úr Evrópusambandinu gæti mögulega flækt þetta mál nokkuð. En ég efast um að það myndi í sjálfu sér breyta því ástandi sem við sem þjóð erum í, við værum enn þá, að óbreyttu, ef þetta mál fer í gegn eins og meiri hluti þingsins hefur verið að reyna að stuðla að, fyrirvaralaus í þessum orkupakka með þann fjórða innan seilingar. Þannig að staða okkar sem slík væri jafn slæm og hún er núna miðað við að þetta mál fari óbreytt í gegn.