149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:35]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég er að hugsa um að fjalla í ræðu minni um fyrirvara. Ég ætla að leyfa mér að byrja á að vitna í færslu sem Arnar Þór Jónsson héraðsdómari birti á Facebook-síðu sinni vegna ummæla hæstv. ráðherra Katrínar Jakobsdóttur um fyrirvara og sæstreng. Með leyfi forseta:

„Ég treysti mér ekki til að tala fyrir munn allra lögfræðinga eins og forsætisráðherrann gerir hér, en tel rétt og skylt að undirstrika eitt atriði:

Fyrirvarar Alþingis munu engu skipta þegar búið verður að fjármagna þennan sæstreng (hvort sem það verður innlent eða erlent fyrirtæki sem gerir það). Ástæðan er sú að ef íslenska ríkið reynir þá enn að standa í vegi fyrir því að strengurinn verði lagður mun verða höfðað samningsbrotamál gegn Íslandi. Íslenska ríkið mun augljóslega tapa því máli þar sem orka er vara, samanber fjórfrelsisákvæðið um frjálst flæði á vörum.

Þetta er nokkuð sem menn hefðu þurft að ræða heiðarlega (og ítarlegar) á fyrri stigum. Í framhaldinu hefði þá verið hægt að ræða efnislega um hagkvæmni/kostnað, kosti/galla þess að senda íslenska raforku til annarra landa. Í þeim þætti umræðunnar hefðu íslenskir stjórnmálamenn a.m.k. fastara land undir fótum en forsætisráðherrann hefur í þessu viðtali.“

Nú getum við haft ákveðna skoðun á því hvort okkur beri að skilgreina orku sem vöru. Í mínum huga finnst mér það að einhverju leyti geta gengið en þó ekki, vegna þess að í okkar tilfelli erum við að ræða um orku sem eina af grunnstoðum okkar. Við treystum á orku til að geta haldið úti t.d. fyrirtækjum um allt land og jafnvel til að geta haldið heimili um allt land, svo að það sé sagt.

En að orðum hæstv. forsætisráðherra. Hún sagði að hún vonaðist til þess að sæstrengur yrði aldrei lagður hingað til lands og taldi alla lögmenn vera sammála um að þriðji orkupakkinn fæli ekki í sér slíka lagningu sæstrengs og það yrði aldrei gert nema Alþingi ákvæði það.

En það er þannig að við sjáum í hendi okkar að þegar við erum orðin hluti af evrópska orkumarkaðnum verði í rauninni ekki hægt að standa í vegi fyrir því að fjárfestar taki ákvörðun um að leggja sæstreng til landsins. Ég hefði viljað á sínum tíma, ef það hefði verið mögulegt, þegar verið var að innleiða orkupakka eitt og orkupakka tvö að þá hefði maður haft einhverja hugmynd um hvað fælist í frekari orkupökkum. Það er þess vegna sem við höfum kallað eftir því að fá upplýsingar um hvað liggur í orkupakka fjögur og vitum núna að það snýr hvað helst að hugsanlegum flutningi á hreinni orku, loftslagsmálum og slíkum þáttum.

Við erum líka á því að það sé vafa undirorpið hvort orkupakki þrjú feli ekki í sér afsal á orkumálunum okkar þar með vegna þess að við verðum hluti af evrópska markaðnum og lög þeirra munu ganga ofar okkar lögum.

Það er svo margt í þessu sem við veltum upp í umræðu okkar. Við höfum ítrekað kallað eftir því að málinu verði vísað til sameiginlegu EES-nefndarinnar til að við getum staðið hvað réttast að öllum álitamálum sem eru í dag ekki annað en pólitískar yfirlýsingar ef við ræðum fyrirvarana sérstaklega.

Ég ítreka að grein í Sunday Times sagði okkur frá því að það er allt komið á fullt við að leggja sæstreng til Íslands og eina sem vantar er stimpill (Forseti hringir.) frá breskum stjórnvöldum.