149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:40]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur einmitt komið fram á heimasíðu þessa fyrirtækis sem vill leggja hér sæstreng að það fyrirtæki sé eftir nýlegar breytingar í stjórnmálum á Íslandi í mjög góðu sambandi við ráðherra í ríkisstjórn Íslands, allra flokka, og að þverpólitískur vilji fari vaxandi á Íslandi fyrir því að sæstrengurinn sé lagður. Þetta er alla vega atriði sem við vissum heldur ekki fyrir tíu dögum að væri með þeim hætti vaxið. Það gerir það náttúrlega miklu nauðsynlegra en fyrr að þeir fyrirvarar sem við setjum séu með því marki brenndir að þeir standist málaferli sem við getum lent í.

Af því að hv. þingmaður minntist á grein Arnars Þórs Jónssonar héraðsdómara sem birtist á Facebook-síðu hans, að mig minnir í gærmorgun, er hann líklega lögmaður númer fjögur eða fimm sem úttalar sig um að þeir fyrirvarar sem settir hafa verið standist ekki og svaraði þar með því sem hæstv. forsætisráðherra hafði haft við orð hér aðeins fyrr um að enginn lögfræðingur væri á þeirri skoðun. En nú hefur það verið rækilega leiðrétt.

Ég spyr hv. þingmann í ljósi alls þessa sem liggur fyrir, hefur legið fyrir og hefur skýrst enn síðustu tíu daga eða svo: Er ekki fullkomið óráð að taka ekki mark á slíkum varnaðarorðum og senda ekki orkupakkann til sameiginlegu EES-nefndarinnar (Forseti hringir.) eins og svo fjölmargir hafa bent á?