149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:47]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Það er nefnilega þannig að það gæti verið gáfulegt á þessum tímapunkti að boða til fundar í utanríkismálanefnd og fá fyrir nefndina þá gesti sem ekki komust þegar gestakomur voru boðaðar til þess að ræða þá nýju fleti á málinu sem við höfum náð fram, t.d. það að fyrirvararnir eru ófullnægjandi, ef þá er einhvers staðar að finna, hvort það sé rétt að þeir fjalli ekkert um orkupakka þrjú og miði aðallega að því að velta fyrir sér aðkomu aðila að því að leggja sæstreng til landsins, hvort lög Evrópu gangi hærra eða lengra en lög Íslands. Það eru alls konar svona þættir sem virðast vera að koma upp á yfirborðið.

Ég minnist þess þegar við vorum á síðasta þingi að fjalla um hina nýju persónuverndarlöggjöf, sem við tókum upp eftir Evrópusambandið. Mig minnir að það hafi tekið 13 daga að setja það mál í gegnum þingið og það var alls ekki nægjanleg umræða í því máli að mínu viti, vegna þess að það er enn þá fullt af álitamálum sem þar eru inni.

Ég legg því til að við tökum einn snúning í viðbót á þessu máli. Ég held að það skipti gríðarmiklu að fólk fái að tjá sig og velta upp þeim flötum sem við höfum ítrekað bent á að séu komnir upp.