149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:49]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur fyrir prýðisræðu, sem innihélt efnislega umfjöllun um fyrirvarana, sæstreng, orkupakka eitt og tvö, og spannar yfir töluvert efni. Mig langar aðeins að staldra við hugleiðingar þingmannsins um innleiðinguna á orkupakka eitt og tvö og hverju það breytti í raun og veru.

Í orkupakka eitt var orkan skilgreind sem vara eða neysluvara, í orkupakka tvö var uppskipting á framleiðslu og dreifingu og því sem var þá gert. Það er túlkun manna, og ég er alveg sammála því, að raforka sé ekkert venjuleg neysluvara, alls ekki, því að flutningur raforku er þannig að það verður alltaf rýrnun í raforkuflutningi, misjafnlega mikill eftir því hvernig búnaðurinn er og þar af leiðandi getur raforkan rýrnað um allt að 20% í flutningi, sérstaklega á milli landa. Þar spilar inn í t.d. breyting úr riðstraumi í jafnstraum og síðan aftur úr jafnstraumi í riðstraum, ef um jafnstraumsstrengi er að ræða.

Mig langar að spyrja þingmanninn í þessu sambandi: Er það ekki einmitt þess vegna — af því að þingmaðurinn kom inn á að þetta hafi ekki fengið neina umræðu á sínum tíma — sem við sitjum uppi með þessi mál úr þessum tveimur orkupökkum í dag, og það sem við ætlum að koma í veg fyrir í afgreiðslu orkupakka þrjú, þ.e. að ræða málið alveg í þaula þannig að við séum upplýst um hvað býr í orkupakka þrjú?