149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:51]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni fyrir spurningarnar. Í orkupakka eitt var orka skilgreind sem vara, ef við bökkum alla leið þangað. Það var kannski fyrsti feillinn sem var gerður, að viðurkenna eina af okkar grunnstoðum, sem ég álít orku vera, sem vöru, vegna þess að þetta er ekki eðlileg vara. Þetta er auðlind. Þetta er auðlind sem við eigum að nýta á okkar forsendum og í sátt við náttúruna og allt það, og sérstaklega eigum við að ganga um auðlindina sem okkar. Mér finnst það aldrei nógu oft sagt.

Eins og hv. þingmaður kom inn á er alveg hárrétt að orka tapast sé hún flutt og sér í lagi með sæstreng. Það er kannski, eins og hv. þingmaður nefndi, tap upp á 20%. Ég hef heimildir fyrir því að það tap mun alltaf lenda á framleiðanda en ekki þeim sem kaupir.

Við framleiðum orku á Íslandi. Við flytjum hana í gegnum sæstreng og tapið sem hlýst lendir þá á okkur og þar með mun raforkuverð hækka til fyrirtækja, einstaklinga og heimila. Það er nokkurn veginn fyrirséð, vil ég leyfa mér að segja. Þetta er það sem liggur fyrir og ætti að vera öllum augljóst.