149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:54]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er nefnilega, má segja, svolítið grundvallaratriði. Við erum að ræða um raforkumál. Við erum að ræða um skilgreiningu á orku. Ég er alveg sammála þingmanninum í því að raforka er auðlindamál. Við erum að framleiða raforku mestmegnis með vatnsorku, en líka með jarðvarma og síðan eru vindmyllur að færast í vöxt. Þetta er engin venjuleg vara. Raforka er mjög merkileg beislun á orku sem á sér langa sögu. Nú erum við með þetta í okkar höndum og viljum hafa það þannig áfram. Þess vegna erum við að fjalla um þetta mál, að kítta í raun og veru upp í allar þær sprungur sem geta orðið á þeirri skútu sem á að setja á flot ef orkupakki þrjú fer í gegn. Í dag er sá bátur hriplekur.

Það hefur mikið verið talað einmitt um töp á rafmagni í innanlandsflutningi og hef ég heyrt áhyggjur t.d. Landsnets og annarra stofnana innan raforkugeirans um þann kostnað sem hlýst af töpum í raforkuflutningi. Eins og kom fram hjá þingmanninum áðan eru töp á raforkuflutningi á milli landa mikil og ég veit að þau eru það mikil að við höfum í rauninni ekki það bolmagn í dag til að standa í því og þess vegna yrðum við að fara í miklu meiri virkjunarframkvæmdir til að fylla upp í það að geta flutt rafmagn á milli landa. En það er framtíðarmúsík.

Ég er ekki með neina beina spurningu í þessu síðara andsvari heldur þakka ég hv. þingmanni fyrir prýðisræðu.