149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:06]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir andsvarið. Svo ég svari síðustu spurningunni fyrst, af því að sá sem hér stendur er að koma úr hálfsmánaðarfríi og var í því fríi oft ekki í símasambandi en það datt þó inn annað slagið og þá fór ég að fylgjast með fréttum og horfði á Alþingisrásina meira að segja. Það sem ég get sagt í því sambandi er að sú skoðun mín og annarra að það beri að fresta þessu máli hefur frekar vaxið í ljósi þess að fleiri og fleiri fréttir og upplýsingar hafa komið um að gjalda beri varhuga við því að innleiða þennan pakka, svo það sé sagt.

En af því að þingmaðurinn uppljóstraði líka um að sá sem hér stendur skuli vera rafvirki en ekki bara trillukarl viðurkenni ég það góðfúslega vegna þess að á sínum tíma tók ég sveinspróf í rafvirkjun og ég hafði mjög gaman af þeirri fræði og þykir raforkuframleiðsla og raforkumál mjög merkileg. Þetta er efnisfræði og mikil vísindi en samt í einfaldleika sínum mjög skiljanleg. Þessi töp sem við erum að tala um eru vegna viðnáms á rafmagnsflutningi og eru eðlisfræðileg og ekki er hægt að breyta þeirri eðlisfræði með neinni tækni. Hún er bara til staðar og mun alltaf verða til staðar þannig að þau töp sem er verið að ræða um í þessu sambandi eru varanleg og til framtíðar. Vísindamenn sjá ekki neitt til að hægt verði að breyta því þannig að þetta er eitthvað sem þarf að fást við til framtíðar.