149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:10]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir spurningarnar. Það er svolítið erfitt að svara þessu með þann asa sem þingmaðurinn kom inn á, en hann er greinilegur vegna þess að hraði málsins núna er orðinn það mikill að maður nær því varla og er mjög ólíkt því sem maður upplifði fyrir ekki svo löngu síðan. Það var einhvern veginn þannig að eftir áramótin áður en málið kom á dagskrá, en reynt var að koma því inn rétt fyrir jólin en var sem betur fer frestað fram í mars, apríl, virtist eins og að þeim þingmönnum stjórnarliðsins sem voru miklir efasemdarmenn væri snúið. Þeim snerist hugur í skoðun sinni á þessu máli. Þeir guldu varhuga við því að innleiða þennan pakka en voru síðan algjörlega sammála því að pakkinn færi í gegn og báru þá fyrir sig fyrirvarana og annað sem þeir lásu út úr umsögnum og ráðleggingum.

Einhverra hluta vegna jókst hraðinn á því tímabili á Alþingi. Ég geri mér ekki grein fyrir því vegna hvers það er. Það gæti verið út af þrýstingi einhvers staðar frá. Norðmenn hafa verið mjög áhugasamir um framgang málsins að mörgu leyti, þ.e. ýmsir á þeim bæ, þannig að það má kannski geta sér til um (Forseti hringir.) alls konar ástæður fyrir því.