149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:17]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Nú hefur það komið fram að stærstu alþýðusamtök þjóðarinnar sem telja 130.000 félaga eru á móti innleiðingu orkupakka þrjú. Ýmis iðnaðarfélög eins og Landssamband bakarameistara eru á móti því. Samtök garðyrkjubænda eru á móti því. Hagsmunasamtök heimilanna eru á móti því, nokkur sveitarfélög, sem sent hafa inn umsagnir, eru á móti því. Samkvæmt skoðanakönnunum eru 62% þjóðarinnar á móti því.

Nú langar mig til að spyrja hv. þingmann hverjar ástæður hann telur að geti verið fyrir því að þrátt fyrir þetta séu ríkisstjórnarflokkarnir ásamt fylgihnöttum einbeittir í því að vilja troða þessum orkupakka í gegnum þingið og ofan í hálsmálið á þjóðinni. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Telur hann að hér sé um venjulegan valdhroka að ræða? Telur hann að hér sé um að ræða að gjá sé á milli þings og þjóðar, þ.e. þess hluta þingsins sem hér um ræðir? Telur hann að það geti hugsanlega verið að ríkisstjórnarflokkarnir ásamt fylgihnöttum séu einbeittir í því að hlusta ekki á þjóðarviljann? Mér þætti mjög vænt um ef hv. þingmaður færi aðeins yfir þetta mál með okkur, hvort hann telur að það sé blanda af öllum þessum ástæðum eða hvort hann telur að það sé ein ástæða umfram aðra sem valdi því að ríkisstjórnin er svona einbeitt í því (Forseti hringir.) að troða þessum orkupakka hér í gegn í óþökk þjóðarinnar.