149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:29]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Án þess að ég sé innarlega í búri VG hefur mér virst að í þeim herbúðum sé kannski mestur aginn, þ.e. maður hefur hitt bæði yfirlýsta Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn sem hafa tjáð sig mjög opið um að þeir séu algerlega á móti þessum pakka og hafi skilið við sinn flokk. Þetta hefur ekki verið eins áberandi, alla vega hvað þann sem hér stendur varðar, en ég tek aftur fram að ég er ekki innsti koppur í búri VG. Mér finnst þetta hins vegar benda til þess — og reyndar hafa fleiri stigið fram og sýnt þann kjark að segja að þeir séu á móti orkupakkanum vitandi það að þeir geti orðið fyrir persónulegum ávirðingum út af því — að fólk sé smátt og smátt að öðlast kjark til að stíga fram. Það er býsna stórt að þurfa að segja þetta, að fólk sé smátt og smátt að öðlast kjark til að stíga fram og segja opinberlega að það sé á móti þeim gjörningi sem meiri hluti þingsins og fylgihnettir ætla að böðla hér í gegn með látum. Ég eiginlega vona að þetta skref sem Bjarni Jónsson steig þarna verði til að gefa öðrum mönnum og konum kjark og kraft til að stíga fram og reyna að sýna stjórnvöldum fram á það með einföldum hætti að stjórnvöldum sé sæmst að taka málið aftur til baka, ígrunda það og geyma a.m.k. til næsta hausts.