149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:31]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir þessa greiningu. Það er kannski rétt að þarna er mestur aginn miðað við það að fáir hafa stigið fram. Ég tek hattinn ofan fyrir Bjarna Jónssyni sem er nokkuð skynsamur í nálgun sinni, vil ég leyfa mér að segja, vegna þess að hann segir, með leyfi forseta:

„… þetta samræmist ekki þeirri sýn sem VG hefur lagt upp með. Þarna erum við að missa forræðið á auðlindinni og stíga skref til markaðs- og einkavæðingar á orkunni. Við myndum t.d. vilja hafa vald til að stýra orkunni í vistvænni verkefni hér heima.“

Þetta finnst mér grundvallaryfirlýsing og nokkuð sterk orð en jafnframt eru þau skýr. Það er skýr meining í því sem hann segir.

Við höfum haldið því fram að það sé ekki skýrt hvert við stefnum og það sem mig langar að velta upp við hv. þm. Þorstein Sæmundsson er hvort hann sjái yfirleitt einhverja kosti við það að innleiða þriðja orkupakkann, hvort það sé eitthvað þar inni sem getur sagt: Jú, allt í lagi, það er eitthvað gott í þessu? Það er spurning hvort svo er.