149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[09:57]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir að rifja upp þetta kostulega og raunar ótrúlega svar hæstv. utanríkisráðherra Guðlaugs Þórs Þórðarsonar við fyrirspurn minni sl. föstudag. Ég verð að viðurkenna að þetta svar ráðherrans gleymdist eiginlega í því útúrsnúningakraðaki sem okkur var boðið upp á í svörum ráðherrans við einföldum spurningum okkar.

Þetta er auðvitað svo fjarri því að vera boðlegt svar við spurningum sem eru af sanngirni settar fram um það hvort ekki sé rétt að stíga eitt til tvö skref til baka og gefa málinu svolítið svigrúm til að vinnast áfram. Það gengur ekki að meginrökin fyrir því að málið skuli keyra í gegn séu kynnt þannig að það gefi mönnum tækifæri til að sjá fyrr en ella að áhyggjur manna hafi verið óþarfar. Auðvitað dettur engum í hug að leggja þetta á borð sem svar í eðlilegum og sanngjörnum samræðum, ekki nema menn ætli beinlínis að pirra mótaðilann. Kannski var það markmiðið, sennilega. Sem betur fer held ég að varla hafi hallað orði á nokkurn mann þann tíma sem við þingmenn Miðflokksins höfum staðið í þessari umræðu en það gæti alveg verið að hæstv. utanríkisráðherra hafi ætlað sér að reyna að draga fram þau viðbrögð hjá okkur með svona fráleitu svari.