149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:04]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem hann flutti. Hann talaði um hversu vont málið væri sem menn reyndu að böðla með þeim hætti sem hér er gert í gegnum þingið. Við höfum vakið athygli á því líka að reynt er að flýta málinu í gegnum þingið og er næsta víst að það sem ekki hefur mátt líta dagsins ljós áður en þessi þingsályktunartillaga átti að samþykkjast er m.a. það að fjórði orkupakkinn skyldi líta dagsins ljós, að fleiri lögmenn stigu fram og lýstu því yfir hversu ónýtir fyrirvarar þeir sem gerðir hafa verið við málið væru og að við erum með sæstreng í bakgarðinum.

Ég geri ráð fyrir, hv. þingmaður, að þetta sé kannski ástæðan fyrir því að menn reyna að böðla málinu í gegn eins og þeir hafa reynt að gera fram til þessa. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður er mér sammála um þetta, en mig langar samt til að biðja hann um að fara yfir það með okkur hvort hann telji að þetta geti verið ástæðan, að menn hafi einmitt ætlað að fara með þetta mál í gegn með þeim hætti sem raun ber vitni vegna þess arna, að menn hafi viljað koma í veg fyrir að þeir atburðir sem hafa gerst, þ.e. fjórði orkupakkinn, sæstrengurinn sem er í bakgarðinum og fleiri álit um fyrirvaraleysið, kæmu fyrir augu þingmanna og almennings áður en þetta yrði samþykkt. Mig langar að (Forseti hringir.) biðja hv. þingmann um skýringu á þessu.