149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:06]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hið minnsta ljóst að ef umræða um málið hefði klárast eins og lagt var upp með, þ.e. þegar þingmenn voru látnir tala inn í nóttina í þarsíðustu viku, hefði umræða og atkvæðagreiðsla verið um garð gengin þegar fjórði orkupakkinn var samþykktur af ráðherraráði Evrópuþingsins.

Ég veit ekki hvort það var sérstakt markmið, en ég viðurkenni að í fyrra andsvari mínu gleymdi ég atriði sem er ekkert smáatriði hvað það varðar, efnisatriði sem á auðvitað að koma til skoðunar, þ.e. þessi samþykkt fjórða orkupakkans og hvernig það spilar saman við þriðja orkupakkann sem nú er til umfjöllunar hjá okkur, þegar það liggur fyrir að í samantekt um fjórða orkupakkann er sagt frá því að eitt af markmiðum hans sé að útvíkka og efla valdheimildir ACER sem þangað verða færðar. Það er í rauninni orsök þessara stjórnskipulegu vangaveltna sem eiga sér stað sem margir hafa miklar áhyggjur af. Það eru auðvitað fleiri sjónarmið í þessu máli öllu en stjórnskipulegu atriðin. En það að nú liggi fyrir samþykkt ráðherraráðs Evrópuþingsins þessa efnis setur málið í allt annað samhengi. Mér vitanlega hefur ekki nema einn þingmaður tjáð sig á þeim nótum að þetta skipti engu máli (Forseti hringir.) og það var formaður Viðreisnar.