149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:08]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að þarna liggi hundurinn grafinn. Ég hygg að menn hafi ætlað sér að böðla málinu í gegn, ekki síst vegna þess að það er næsta víst að þeir þingmenn í stjórnarliðinu sem voru efins um þátttöku sína í þessu ólánsmáli voru vélaðir til þátttöku með því að veifa framan í þá fyrirvörum sem síðan reyndust haldlausir. Ég hygg að við það hafi komið fát á stjórnarmeirihlutann og að menn hafi viljað tryggja að vitneskjan um að fyrirvararnir væru haldlausir — menn hafi viljað koma í veg fyrir það að sú vitneskja birtist þeim þingmönnum sem voru efins og jafnvel mótfallnir til að tryggja að hægt væri að afgreiða málið með þeim hætti sem stjórnarmeirihlutinn hafði ákveðið að gera.

Ég hygg að við hv. þingmaður séum nokkuð sammála um þetta, en mig langar samt að minnast líka á að það virðist hafa verið eytt rosalega miklum tíma í að berja liðið saman eins og það heitir og fá menn til að ganga í takt. Á sama tíma hafa menn forsómað það að kynna þjóðinni raunverulegt innihald þessa orkupakka sem nú á böðla í gegn í andstöðu við meiri hluta þjóðarinnar.

Nú langar mig til að fá skoðun hv. þingmanns á þessu, hvort þetta gæti verið ein skýring á því að menn hafa reynt að böðla þessu fram eins og raun ber vitni.