149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:31]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Það er einmitt þessi sviðsmynd sem við þyrftum að fá greiningu á með óyggjandi hætti, þetta með auðlindirnar og hver muni eiga vatnsréttindi og slíkt. Það hefur ekki verið borið fram þannig að við getum tekið afstöðu til þess.

Talandi um afleiðingar fyrir komandi kynslóðir er algjörlega ljóst að raforkuverð mun hækka en hér á landi verður framleidd hrein orka sem verður væntanlega flutt með sæstreng til Evrópu og ekki nóg með það heldur getur vel verið að störf muni einnig flytjast þangað vegna þess að það nægir iðnaðinum að hafa orkuna hér hreina og síðan er hægt að flytja hana yfir til Evrópu þar sem jafnvel er hægt að setja upp sambærilegar verksmiðjur og við höfum hér í dag. Þar eru oft og tíðum jafnvel greidd lægri laun. Það er því ýmislegt í þessu öllu saman og þess vegna nauðsynlegt að við skoðum hvað muni fylgja í farvatninu.

Það er algjörlega ljóst að fjárfestar sem vilja leggja hingað sæstreng munu ekki hika við að fara í mál við okkur, slíkt er í húfi, gríðarlegir fjármunir. Ég efast ekki um að þeir muni ekki hika við að gera það. Ég vona að ég hafi náð utan um allar spurningarnar.