149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:33]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur fyrir ræðuna. Hún kom víða við en það er eitt atriði sem ég vildi staldra við og inna hana eftir viðhorfum hennar. Það er ekki annað að sjá en að það hafi verið tilkynnt af hálfu Þorsteins Pálssonar, sem er hugmyndafræðingur Viðreisnar, sem virðist vera flokkur sem hefur það helst á stjórnmálalegri dagskrá sinni að Ísland gangi í Evrópusambandið — reyndar annar flokkur hér, Samfylkingin, sem svipað virðist ástatt um — það er ekki annað að sjá en að hann telji í grein sinni sem birtist á vefsíðu sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar og er dagsett 28. maí, að með því að samþykkja það mál sem hér liggur fyrir, þriðja orkubálkinn, sé vegurinn ruddur og nánast malbikaður í átt að fullri aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þorsteinn Pálsson orðar þetta svo í grein sinni, með leyfi forseta, „að samtímis og menn samþykkja prinsippin í þessu máli eru þeir í raun að viðurkenna þau prinsipp sem full aðild að Evrópusambandinu er reist á“.

Hér er alveg greinilegt hvað er uppi, full aðild að Evrópusambandinu, og það miðað við skrif sömu aðila innan fárra ára.