149. löggjafarþing — 112. fundur,  29. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:40]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nefnilega það, það er Ísland í Evrópusambandið sem þó glímir við risavaxinn innri vanda en lykillinn sem þeir sjá í málum okkar er auðvitað hreina orkan. Það er akkúrat sá lykill sem þeir þurfa til að standa við markmið sín. Við skulum muna að þeir framleiða með svokallaðri óhreinni orku um 70% og þurfa þar af leiðandi aðeins að laga það hlutfall. Okkar orka nýtist vel í það og þess vegna er líka ólga innan norskra stjórnmála, Norðmenn búa einnig yfir þeirri hreinu orku. Þar erum við með Evrópusinnaðan hægri flokk í fararbroddi.

Það er engin spurning í mínum huga að Brexit spilar stóra rullu í öllu þessu máli. Þetta hangir allt saman. Ég er enn ekki búin að setja það í einhverja heildarmynd í kollinum á mér en mér finnst öll púsl miða að þeirri heildarmynd, þ.e. að Evrópusambandið ætli sér að sjá til þess að allt verði einn markaður og allir verði þar af leiðandi jafnaðir upp á við. Þá meina ég auðvitað með hækkun raforkuverðs hér á landi.

Hv. þingmaður nefndi grísku þjóðina sem er skuldaþræll. Það er engum blöðum um það að fletta, það er vitað. Til að ljúka máli mínu vil ég segja að það er sjálfsögð krafa okkar að fá að vita hvað felst í fjórða orkupakkanum. Við erum að ræða þriðja orkupakkann og það hefði verið ágætt fyrir okkur, ég vildi að fólk hefði haft vit á því fyrr, að vita hvað væri í framhaldi af jafnvel fyrsta orkupakkanum til að vita hvert væri verið að stefna. (Forseti hringir.) Við sjáum núna hvert er verið að stefna og það er í Evrópusambandið.