149. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2019.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[20:19]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Kæru landsmenn. Við lifum á tímum hraðari breytinga en nokkrar kynslóðir á undan okkur, breytinga sem í senn fela í sér stórkostleg tækifæri en um leið miklar áskoranir. Miklar breytingar kalla líka oft á mikil hagsmunaátök, átök milli íhaldssemi og framsækni, en breytingarnar verða þó aldrei umflúnar. John F. Kennedy sagði eitt sinn, með leyfi forseta:

„Breytingar eru lögmál lífsins. Þeir sem horfa einungis til fortíðar eða nútíðar munu missa af framtíðinni.“

Sú íhaldsstjórn sem nú situr við völd hér á landi ætlar að freista þess að bíða af sér framtíðina. Hún var reyndar stofnuð um kyrrstöðu, stofnuð til varnar þröngum sérhagsmunum fortíðar.

Herra forseti. Íslenskt samfélag hefur tekið stakkaskiptum á þeim aldarfjórðungi sem liðinn er frá því að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið tók gildi. Lífskjör hafa batnað mikið samhliða því sem utanríkisviðskipti okkar hafa dafnað, erlend fjárfesting stóraukist og frjálst flæði fólks í senn styrkt íslenskan vinnumarkað með aukinni þátttöku erlendra starfsmanna en ekki síður skapað ný tækifæri á erlendri grundu fyrir okkur Íslendinga. Enginn vafi leikur á því að aukin þátttaka okkar í alþjóðahagkerfinu í gegnum EES hefur reynst okkur mikið gæfuspor. Næsti aldarfjórðungur mun þó án efa fela í sér enn meiri breytingar en þær sem við höfum upplifað hingað til. Sú mikla vá sem blasir við í umhverfismálum kallar á algera endurskoðun á neyslu okkar og atvinnuháttum og krefst stóraukinnar þátttöku okkar í alþjóðasamstarfi gegn hlýnun jarðar. Tæknibreytingar eru hraðari en nokkru sinni fyrr og þær breytingar munu gjörbylta atvinnugreinum hér á landi.

Heimurinn hefur minnkað og í því felast mikil tækifæri fyrir litla, kjarkaða og vel menntaða þjóð. Það ræðst hins vegar af viðbrögðum okkar hvort okkur takist að nýta þær okkur til hagsbóta og blómlegrar framtíðar eða hvort við verðum aðeins áhorfendur að þessum miklu breytingum með tilheyrandi skerðingum á lífskjörum.

Herra forseti. Framtíðin verður nefnilega aldrei flúin. Vaxandi þjóðernisöfgar um allan heim eru mikið áhyggjuefni, meiri ógn steðjar nú að lýðræðinu en við höfum séð um áratugaskeið, vaxandi einangrunarhyggja, einræðislegir tilburðir og árásir á minnihlutahópa minna óþyrmilega á uppgang fasismans á þriðja áratug síðustu aldar. Ef við sofnum á verðinum gætum við vaknað í heimi sem við viljum ekki kannast við.

Þjóðum heimsins hefur ekki tekist að tryggja að efnahagslegur ávinningur af alþjóðavæðingunni hafi skilað sér af sanngirni til allra þjóðfélagshópa. Dregið hefur úr félagslegum hreyfanleika og vaxandi óánægja með ójafna skiptingu gæða er undirrót þeirrar ólgu sem við nú sjáum í stjórnmálum víða um heim. Þrátt fyrir mikinn launajöfnuð hér á landi á þessi veruleiki einnig við okkur Íslendinga.

Millistéttin hefur hér sem og á öðrum Vesturlöndum átt undir högg að sækja og hár kostnaður við íslensku krónuna veldur miklum eignaójöfnuði. Krónan hyglir nefnilega þeim, bæði fyrirtækjum og einstaklingum, sem geta fært eignir sínar úr landi þegar hentar. Hver situr svo uppi með kostnaðinn af krónunni? Jú, íslenskur almenningur, en auðvitað berjast þeir hvað harðast gegn breytingum í gjaldmiðlamálum okkar sem geta hagnast hvað mest á núverandi stöðu. Um þá stöðu hefur núverandi ríkisstjórn tekið sér varðstöðu.

Herra forseti. Sú vá sem jörðinni stafar af hamfarahlýnun af mannavöldum er fordæmalaus og stjórnvöld þurfa kjark til að takast á við hana. Markaðshagkerfi og umhverfisvernd eru ekki andstæður líkt og oft er haldið fram, en það verður að nýta markaðsöflin í þágu umhverfisverndar. Hin augljósa staðreynd er sú að eins og hagkerfi heims eru uppbyggð nú um stundir er mikil hagnaðarvon í mengun. Kolefnisfótspor okkar er einfaldlega of ódýrt. Í dag borga þeir sem menga ekki kostnaðinn heldur er það jörðin sem situr uppi með reikninginn, við öll, íbúar jarðarinnar.

Hæstv. ríkisstjórn talar hátt í þessum efnum en gerir fátt og því miður er metnaðarlaus loftslagsstefna ríkisstjórnarinnar mikil vonbrigði.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birti nýlega skýrslu um nauðsynlegar aðgerðir í loftslagsmálum. Ef Ísland myndi fara eftir niðurstöðu þeirrar skýrslu þýddi það að tvöfalda þyrfti kolefnisgjöld hér á allar samgöngur til að ná skuldbindingum okkar í Parísarsamkomulaginu. Ég hræðist það að núverandi ríkisstjórn hafi ekki dug í að standa vörð um umhverfið með þeim hætti. Losun vegna landnotkunar í landbúnaði hér á landi er einnig mjög mikil. Ljóst er að auka verður verulega fjárhagslegan hvata til mótvægisaðgerða, svo sem endurheimtar votlendis og skógræktar. Mikilvægt er í þessu samhengi að tengja betur saman aðgerðir í loftslagsmálum við stuðningskerfi í landbúnaði. Þar geta falist veruleg tækifæri til að efla til muna íslenskan landbúnað en um leið draga úr kolefnisspori hans. Þegar ráðherra landbúnaðar var spurður um metnaðarleysi í þessum málum hér á Alþingi bar hann fyrir sig að það vantaði tæki til að setja okkur metnaðarfyllri markmið.

Við erum sammála um þörfina á metnaðarfullum markmiðum en við erum brunnin inni á tíma. Við verðum að hætta að fresta aðgerðum og leita blóraböggla. Á Íslandi er nefnilega gnægð tækifæra fyrir grænt hagkerfi sem getur staðið undir velferð okkar til framtíðar. Við eigum að vera leiðandi í grænum orkugjöfum og efla tækni- og hugvitsgeirann í tengslum við það.

Góðir landsmenn. Slík framtíðarsýn leiðir hins vegar óneitanlega hugann að stöðu nýsköpunar hér á landi. Lítil breyting hefur orðið á útflutningstekjum tækni- og hugvitsgreina á undanförnum áratug og allt of fá störf hafa skapast á þeim vettvangi. Þess í stað hefur hagvöxtur verið drifinn áfram af ferðaþjónustunni. Ríkisstjórn sem lofar nýsköpun í öðru hverju orði ver tvisvar sinnum hærri fjárhæðum til stuðnings landbúnaði en til nýsköpunar. Það endurspeglar trú hennar á atvinnuvegum framtíðarinnar.

Ríkisstjórnin neitar að horfast í augu við þær áskoranir sem alþjóðleg fyrirtæki búa við hér á landi vegna sveiflukennds gjaldmiðils. Við getum ekki lengur byggt afkomu okkar einvörðungu á nýtingu auðlinda. Við verðum að byggja upp sterkt og öflugt þekkingarhagkerfi ef við ætlum að skapa tækifæri fyrir ungt og vel menntað fólk hér á landi. Krónan kippir hins vegar reglulega stoðunum undan rekstri fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni. Fyrir vikið höfum við séð að ung og efnileg fyrirtæki eru seld úr landi eða flytja starfsemi sína utan mun fyrr en við höfum áður átt að venjast. Ofan á það hefur menntun aldrei verið jafn lítt metin til launa og nú. Hver á þá að drífa áfram nýsköpun og hugvit sem ríkisstjórnina langar svo mikið að efla ef ekki unga fólkið og framtíðin?

Tilraunin með krónuna er fullreynd, herra forseti. Við munum aldrei búa íslenskum tækni- og hugverkafyrirtækjum ásættanlegt rekstrarumhverfi með hana að vopni. Við munum heldur ekki skapa framtíðarkynslóðum þessa lands þau tækifæri sem þær eiga skilið, hagnýtingu góðrar menntunar eða samkeppnishæf lífskjör með svo kostnaðarsaman gjaldmiðil. Við þurfum að horfa til framtíðar. Grænt hagkerfi og nýsköpun mun leika þar lykilhlutverk. Við skuldum framtíðinni að gera betur með orðum Gretu Thunberg sem vakið hefur heiminn til umhugsunar í umhverfismálum með baráttu sinni: „Breytingar eru í vændum, hvort sem þér líkar það eða ekki.“

Kæru landsmenn. Þið getið treyst því að við í Viðreisn tökum framtíðinni opnum örmum.