149. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2019.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[21:17]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Kjarahækkanir undanfarinna áratuga hafa ekki skilað sér til þeirra sem mest þurfa á því að halda, þ.e. til öryrkja, eldri borgara og láglaunafólks. Ef rétt væri gefið væri lífeyrir Tryggingastofnunar ríkisins ekki undir 300.000 eftir skatt og þá væru skattar og skerðingar á lífeyrissjóðsgreiðslur ekki frá 73% til 100%, og yfir það, sem er ekkert annað en eignaupptaka.

Nýleg lög sem nýtast þeim best sem hafa yfir 500.000 kr. á mánuði úr lífeyrissjóði hafa tekið gildi, þ.e. að þeir sem eru með þetta háan lífeyri frá lífeyrissjóðnum geta sótt um hálfan lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins og hálfan lífeyri frá lífeyrissjóðnum. Þeir sem þennan rétt hafa geta fengið 124.000 kr. á mánuði ef þeir eiga maka, annars 155.000 kr. á mánuði ef þeir búa einir, frá Tryggingastofnun ríkisins í boði núverandi ríkisstjórnar. Þeir sem eru með einni krónu of lítið fá ekkert. Ein króna skilur að hvort viðkomandi fær 124.000 eða 155.000 kr. á mánuði eða ekkert. Ein króna. Þá verða öryrkjar með um 60.000 kr. á mánuði frá lífeyrissjóðum fyrir 100% skerðingum sem er ekkert annað en skattar og eignaupptaka á lífeyrissjóðsgreiðslum viðkomandi. Öryrkjar fá ekki að halda krónu eftir af 60.000 kr. lífeyrissjóðsgreiðslum sínum, ekki einni krónu af lögþvinguðum, eignaupptökuvörðum lífeyrissjóðssparnaði sínum. Þar er um að ræða konur í meiri hluta því að þær eru með verri lífeyrissjóðsinneign en karlar á sama tíma og hátekjumaður með 1 millj. kr. úr sínum sjóði fær í hálfum á móti hálfum kerfinu 155.000 kr. í boði ríkisstjórnarinnar.

Lífeyrissjóðsgreiðslur öryrkja með 60.000 kr. lífeyrissjóðsgreiðslu á mánuði skila honum ekki krónu til framfærslu heldur verður öryrkinn að reyna að lifa á 212.000 kr. á mánuði eftir skatta og keðjuverkandi skerðingar. Á meðan fær hálaunaþeginnn með 1 milljón á mánuði úr lífeyrissjóði um 95.000 kr. frá Tryggingastofnun ríkisins eftir skatta, samanlagt 760.000 kr. á mánuði eftir skatta, eða 548.000 kr. meira en öryrkinn. Þarf hann 95.000 kr. frá ríkinu eftir skatta? Ég segi nei.

Góðir landsmenn. Ef þetta er þeirra réttlæti, hvernig í ósköpunum er þá þeirra ranglæti? Jú, því miður, stór hópur af veiku fólki, öryrkjum og eldri borgurum, sem verður að lifa á lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins sem er langt undir fátæktarmörkum býr við sárafátækt og á ekki matarbita í ísskápnum upp úr miðjum mánuðinum eða jafnvel fyrr og á því á hættu að verða fyrir alvarlegum næringarskorti.

Eldri borgarar sem hafa unnið alla sína tíð og borgað skatta geta ekki einu sinni endurnýjað heyrnartæki sín og þurfa að lifa í þögn í boði ríkisins, gleymast á biðlista eftir aðgerðum í lyfjavímu svo mánuðum eða árum skiptir. Þegar þau fá loks aðgerðina fara þau á næsta biðlista sem hefur verið gefið hið ömurlega og niðurlægjandi nafn fráflæðisvandi. Já, veikt fólk og eldri borgarar eru fráflæðisvandi.

Um 10.000 börn búa við fátækt, þar af stór hópur þeirra við sárafátækt, og það er okkur hér á Alþingi til háborinnar skammar.

En ranglætið heldur áfram. Það verður áfram sparkað fjárhagslega í öryrkja og aldraða með því að neita þeim um að fá að vera með í svokölluðum lífskjarasamningum. Meðan launþegi fær 17.000 kr. frá 1. apríl í ár fá öryrkjar og eldri borgarar á lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins ekki krónu í hækkun. Í fyrsta lagi 1. janúar 2020 fær lífeyrisþeginn hækkun um 3%, sem er kannski 8.000–9.000 kr. á mánuði, sem er helmingurinn af því sem ætti að vera, og þá ekki afturvirkt frá 1. apríl eins og launþegar fá.

Allir flokkar hafa lofað að afnema krónu á móti krónu skerðingar, en nú er það einnig svikið, verður bara gert að hluta og það í áföngum.

Ríkisstjórnin hefur haft um 30 milljarða af öryrkjum vegna svikinna loforða um að afnema krónu á móti krónu skerðingu. Það er 1% afgangurinn sem á að vera á kostnað og í boði öryrkja. Hún lofaði 4 millj. kr. í ár og tókst með brellum að taka 1,1 milljarð burtu og liggur svo eins og ormur á gulli á 2,9 milljörðum kr. sem enginn í ríkisstjórninni virðist vita hvort eða hvenær kemur til útborgunar. En þessir 2,9 milljarðar kr. duga bara fyrir einum fjórða af því sem þarf til að hætta krónuskerðingunum sem eru ekkert annað en 100% skattur.

Flokkur fólksins var stofnaður til að berjast gegn fátækt. Því miður er ekki bara fátækt á Íslandi í dag, það eru allt of margir sem búa við sárafátækt sem er þjóðarskömm og ber að koma í veg fyrir með öllum ráðum og það strax í dag. Flokkur fólksins mun halda áfram að berjast fyrir réttlæti og sjá til þess með öllum ráðum að fátækt fólk þurfi ekki að bíða lengur eftir réttlæti.

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Vonandi fá allir, við öll, svo fljótt sem auðið er, að lifa góðar stundir.