149. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2019.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[22:02]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Það gleður mig sérstaklega að fá að eiga við ykkur orðastað aftur. Mig langar að velta þessu upp núna: Skyldi það vera svo að þjóðarskútan okkar færi á hliðina ef við hættum að skattleggja fátækt? Maður horfir um öxl og hugsar: Hvað er það sem ég hef séð? Hvað hefur gerst þetta ár frá því að ég stóð hér í síðustu eldhúsdagsumræðum? Jú, við vitum að það eru á bilinu 10–15% barnanna okkar sem líða mismikinn skort. Við fengum staðfestingu á því nú seinni partinn í febrúar þegar birt var skýrsla Velferðarvaktarinnar sem upplýsti okkur um það. Jú, við vitum að íbúum landsins er mismunað eftir búsetu þegar kemur að heilbrigðisþjónustu. Suma þarf að fylla af koníaki til að sauma þá saman með nál og þræði vegna þess að það er bara enginn aðbúnaður. Næsti hjúkrunarfræðingur er í rúmlega klukkustundarfjarlægð frá staðnum. Þar er ég að vísa til þess sem ég talaði um hér um daginn og átti sér stað í Húnaþingi eystra.

Virðulegi forseti. Hvað getum við gert? Hvað getum við gert til að koma í veg fyrir að hér sé alltaf ákveðinn hópur skilinn út undan? Jú, við getum byrjað á því að forgangsraða fjármunum. Við getum t.d. byrjað á því að sleppa því að lækka bankaskattinn um 7 milljarða og veiðigjöld um 4,3 milljarða; það dregur úr innkomu ríkissjóðs um 11,3 milljarða á þessu ári. Jú, við getum virkilega séð að fram undan er 110 milljarða kr. arðgreiðsla úr okkar frábæru auðlind, raforkuauðlindinni Landsvirkjun. Við verðum að halda utan um það. Jú, við eigum ekki á sama tíma að segja: Heyrðu, við ætlum að reyna að koma því að með öllum lifandi ráðum að leggja á ykkur vegskatt. Fyrst tökum við lán fyrir framkvæmdunum og svo leggjum við á ykkur vegskatt til að láta ykkur borga lánið, vegna þess að við erum að hugsa um öryggi borgaranna í umferðinni, virðulegi forseti, og hver er að hugsa um öryggi fíklanna okkar en 39 ungmenni dóu sannarlega ótímabærum dauða á síðasta ári vegna ofneyslu ópíóíða? Af 55 dauðsföllum sem vitað er um á síðasta ári eru 39 sem rekja má til þeirrar vár sem ópíóíðafaraldurinn hefur haft hér í för með sér á okkar ágæta landi. Hefði þetta gerst í umferðarslysum, hvað væri búið að virkja þá, virðulegi forseti? Hér væri samfélagið gjörsamlega komið á hliðina.

Því miður bíða hér enn 600 einstaklingar, fárveikir fíklar og alkóhólistar, eftir því að fá viðunandi úrræði, komast í meðferð, fá lækningu, enn árið 2019. Þetta er óviðunandi, virðulegi forseti. Flokkur fólksins segir: Hingað og ekki lengra og ég trúi því — ég trúi því að við getum öll sagt: Hingað og ekki lengra. Þetta er óviðunandi.

Að lokum aðeins þetta: Ef stjórnmálamaður segir við mig: Inga, við erum á sama báti, segi ég nú bara: Eins gott að forða sér, því það er alveg greinilegt að það er ég sem á að róa. — Gleðilegt sumar aftur.