149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

störf þingsins.

[10:00]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Frétt vakti athygli mína sem sagði frá því að í síðustu viku hefði landlæknir birt skýrslu um svokallað átak stjórnvalda sem lýtur að liðskiptaaðgerðum. Árin 2016–2018 hefur ásóknin sexfaldast, sex sinnum fleiri hafa farið til útlanda í liðskiptaaðgerðir á meðan kostnaðurinn hefur sjöfaldast. Maður spyr sig, virðulegi forseti: Er þetta eðlileg forgangsröðun? Er eðlilegt að við skulum senda fólk í bílförmum til útlanda í aðgerðir, sem hægt er að framkvæma hér heima, með margföldum auknum tilkostnaði? Hvaða heilbrigðisstefna er það sem við horfum upp á? Það er ekki einungis að hinn sjúkratryggði fari til útlanda í aðgerðina, hann þarf líka að hafa með sér fylgdarmann. Allt er borgað, dagpeningar, uppihald og ferðakostnaður, á meðan við höfum fagaðila, sérfræðinga sem geta gert slíkar aðgerðir hérna heima.

Ég spyr mig: Er heilbrigðisstefnan ekki á rangri leið þegar hún er orðin svo rosalega miðstýrð að það er í rauninni ekki hægt að nýta sér þá sérfræðinga sem við eigum hér heima til að framkvæma slíkar aðgerðir heldur eru sjúklingarnir og þeir sem nauðsynlega þurfa á aðgerðunum að halda sendir til útlanda? Mér finnst þetta vægast sagt dapurleg stefna, svo að ekki sé meira sagt.