149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

fullgilding samnings um að koma í veg fyrir stjórnlausar úthafsveiðar í miðhluta Norður-Íshafsins.

773. mál
[11:05]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér láðist að geta þess áðan að nokkrir nefndarmenn voru ekki viðstaddir þegar málið var afgreitt úr nefndinni. Ég áttaði mig ekki á því að fletta á næstu blaðsíðu en ég sé að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson var fjarverandi þegar málið var afgreitt úr nefndinni 17. maí sl.

Ég átta mig ekki alveg á spurningunni um hvað felist í varúðarnálgun annað en það sem fram kemur í nefndarálitinu, þ.e. að þar til frekari upplýsingar liggja fyrir um þær breytingar sem eru nú að verða á lífkerfinu og hvaða möguleika þær breytingar eða þau viðfangsefni muni fela í sér vilja menn fara varlega á þessu svæði, þar til frekari vísindalegar upplýsingar liggja fyrir hvað varðar áhrif á lífkerfið með tilliti til stöðunnar þegar þar að kemur.

Ég get ekki útskýrt þetta frekar en svo. Þarna eru varúðarnálganir gagnvart lífkerfinu og að ganga vel um náttúruna svo mögulega verði hægt að stunda þarna veiðar í atvinnuskyni í framtíðinni með sjálfbærum hætti.