149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

fimm ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2019--2023.

403. mál
[11:33]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli framsögumanns álits umhverfis- og samgöngunefndar, hv. þm. Líneikar Önnu Sævarsdóttur, er ég á þessu áliti. Það eru þó tvö atriði sem mig langaði sérstaklega til að koma inn á í þessu samhengi. Það eru mörg mál undirliggjandi í vinnslu núna sem tengjast með einum eða öðrum hætti inn í áætlunina og stefnuna en það eru þrjú praktísk mál sem ég vildi nefna sem ástæða er til að hafa í huga, tímafrestir í póstmálum, GSM-þekja kerfa og síðan ljósleiðari með tilliti til umræðu um það sem kallað hefur verið svartur ljósleiðari.

Í nokkrum orðum liggur það þannig að gefin eru út starfsleyfi hinna ýmsu fyrirtækja. Ég tek dæmi af fyrirtækinu Creditinfo, Lánstraust heitir það, sem heldur utan um svokallaða vanskilaskrá. Þar fá þeir sem eiga yfirvofandi skráningu til sín meldingu um að innan tiltekins dagafjölda verði þeir skráðir á vanskilaskrá verði ekki brugðist við fyrir þann tíma. Þegar við sjáum nú stöðuna þannig að það getur bæði verið óvissa um dagafjölda frá póstlagningu til þess að bréf kemst til meðferðar og síðan aftur frá meðferð bréfs til afhendingar eru atriði eins og þessi, nú tek ég bara þetta eina dæmi um þetta eina fyrirtæki en þetta er víðar í kerfinu, sem er nauðsynlegt að fara í gegnum, þ.e. þessi leyfi og þessi viðmið, hvort ástæða sé þá til að lengja í tímafrestum eða uppáleggja þeim aðilum sem bera þessar skyldur að útfæra tilkynninguna með öðrum hætti. Þetta getur skipt verulegu máli fyrir þá sem eiga þetta yfir höfði sér ef svo má segja.

Hið sama er með hinar ýmsu stofnanir ríkisins. Það er iðulega kvartað yfir því og sagt með smávægilegum ýkjum í gríni að hið opinbera taki sér allan heimsins tíma í að svara en gefi í mesta lagi tvo daga til að svara til baka. Það þarf að skoða í þessu samhengi hvort við þrengjum þarna með óforsvaranlegum hætti að réttindum borgaranna til að bregðast við sjónarmiðum hins opinbera þannig að þessu sé haldið til haga.

Annað atriði sem ég vildi koma inn á er það sem snýr að þekju fjarskiptakerfa og þá fyrst og fremst GSM- og gagnaflutningskerfa og þær heimildir sem kallaðar eru reiki á milli þjónustuaðila. Fyrir hinn almenna borgara skiptir mestu máli að vera í ágætu sambandi og geta treyst því að á öllum meginleiðum sé þjónusta til staðar, þótt ekki væri nema út frá öryggisforsendum.

Þetta eru atriði sem ég vil bara nefna að sé ástæða til að skoða sérstaklega, þ.e. hvort breytinga sé þörf. Við þekkjum frá fyrri tíð þegar verið var að bjóða út uppbyggingu tiltekinna svæða í GSM-kerfunum þar sem ríkisstuðningur, ef svo má segja, var skilyrtur því að aðrir þjónustuveitendur hefðu heimild til að reika inni á sama kerfi. Þessar kvaðir ganga úr sér jafnt og þétt eins og við þekkjum og ég vil nefna hér að það gæti verið ástæða til að skoða þetta sérstaklega í þessu samhengi á næstunni.

Þriðja atriðið sem mig langaði til að nefna og snýr að máli sem er til umræðu í umhverfis- og samgöngunefnd, en tengist þessu með beinum hætti þótt það sé í öðru máli, er umræða um uppbyggingu ljósleiðaraneta. Þetta er rökræða sem snýst um það hvort nálgast skuli þessa kerfisuppbyggingu út frá svokölluðum svörtum ljósleiðara sem þýðir að hvaða þjónustuveitandi sem er hefur aðgengi með opnari hætti að þræði eða ljósleiðara sem annar aðili á en reglurnar kveða á um eins og þær eru í dag. Þetta er rökræða sem er í gangi í umhverfis- og samgöngunefnd og það er svo sem óvíst hvort hún klárast á þessu þingi eða verður frestað fram á haust. Ég held að það sé ekki stóra atriðið hvort málið klárast núna eða með haustinu en þetta er atriði sem er nauðsynlegt að halda til haga í þessu samhengi.

Á höfuðborgarsvæðinu er töluverður munur á útbreiðslu eigenda grunnnetanna, í þessu samhengi ljósleiðara, og við verðum að hafa í huga réttmætar áhyggjur af því að ef fram heldur sem horfir og sú nálgun verður viðhöfð að það þurfi að byggja upp heildstætt tvöfalt kerfi á öllu höfuðborgarsvæðinu eru hóflegar líkur til þess að það ýti undir uppbyggingu á landsbyggðinni. Áherslan á uppbygginguna verður væntanlega á höfuðborgarsvæðinu þangað til það er fullþjónustað.

Ég vildi flagga því í þessari umræðu að þessi atriði þurfa nauðsynlega að koma til skoðunar. Það er ekki kominn botn í neitt þeirra. Ég vona bara að umhverfis- og samgöngunefnd taki þessi mál áfram til ígrundaðrar skoðunar og að skynsamleg lending náist.

Að öðru leyti þakka ég bara fyrir samstarfið í tengslum við þau mál sem hér liggja fyrir með beinum hætti og legg til að þau hljóti afgreiðslu.