149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

542. mál
[11:46]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ég geri grein fyrir nefndaráliti frá umhverfis- og samgöngunefnd. Hún hefur fengið tíu gesti og átta umsagnir og með þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, eins og fram hefur komið, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum. Þetta er að hluta til innleiðing frá EES. Megintilgangur frumvarpsins er að leggja til að Umhverfisstofnun verði heimilað að leggja á stjórnvaldssektir vegna tiltekinna brota gegn lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum um meðhöndlun úrgangs. Eins eru í frumvarpinu lagðar til margvíslegar aðrar breytingar á lögum sem nánar eru raktar í athugasemdum við frumvarpið.

Fyrst um stjórnvaldssektir. Það kom fram hjá allmörgum gestum, einkum fulltrúum heilbrigðisnefnda, að heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga ættu einnig að fá heimild til álagningar stjórnvaldssekta. Bent var á að það kynni að auka á flækjustig ef staðbundin stjórnvöld væru skylduð til að vísa málum til Umhverfisstofnunar sem þyrfti þá að rannsaka þau að nýju. Hætta væri á tvöföldu eftirliti með tilheyrandi kostnaði fyrir eftirlitsskylda aðila. Þá væru heilbrigðiseftirlitin, sem staðbundið stjórnvald, nær málinu sem upp kemur og almennt betur fallin til þess að meta aðstæður.

Í greinargerð með frumvarpinu leggur ráðuneytið áherslu á að álagning stjórnvaldssekta teljist ekki til þvingunarúrræða heldur refsikenndra viðurlaga við brotum gegn lögunum. Heilbrigðisnefndir hafi vald til þess að beita þvingunaraðgerðum til þess að fá rekstraraðila til að uppfylla skyldur sínar. Mikilvægt er að álagning stjórnvaldssekta verði með samræmdum hætti og leggur ráðuneytið til að einungis Umhverfisstofnun hafi þessa heimild. Stofnunin hafi sams konar hlutverk samkvæmt efnalögum og því sé þekking nú þegar til staðar hjá Umhverfisstofnun. Þá benti ráðuneytið á afstöðu Samtaka atvinnulífsins og fleiri sem taka undir það mat ráðuneytisins að álagning stjórnvaldssekta sé eingöngu á hendi Umhverfisstofnunar.

Hins vegar má geta þess að í 34. gr. laga um vernd afurðarheita sem vísa til uppruna, landsvæðis og hefðbundinnar sérstöðu hefur heilbrigðisnefndum sveitarfélaga verið falin heimild til að leggja á stjórnvaldssektir. Þá er gert ráð fyrir því að heilbrigðisnefndir sveitarfélaga fái heimild til álagningar stjórnvaldssekta í drögum að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Með þessu eru heilbrigðisnefndum falin mismunandi úrræði eftir því hvort um er að ræða svið matvæla og landbúnaðar eða hollustuhátta og mengunarvarna.

Varðandi samræmt verklag verður ekki fram hjá því litið að Umhverfisstofnun er sérstaklega falið það hlutverk að hafa yfirumsjón með heilbrigðiseftirliti samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í yfirumsjón felst samræming heilbrigðiseftirlits þannig að framkvæmdin á að vera með sama hætti á landinu öllu. Í 52. gr. laganna er kveðið á um að Umhverfisstofnun skuli einnig vinna að samræmingu heilbrigðiseftirlits í landinu.

Nefndin telur að ákveðins misskilnings gæti í þeirri afstöðu að með því að álagning stjórnvaldssekta verði einungis á hendi Umhverfisstofnunar verði kæruleiðir skýrari og mótun framkvæmdar í gegnum úrskurði skilvirkari. Í frumvarpinu segir að ákvarðanir Umhverfisstofnunar um álagningu stjórnvaldssekta séu endanlegar á stjórnsýslustigi. Stjórnsýslukæra kemur því ekki til álita.

Að mati nefndarinnar hníga veigamikil rök til þess að heilbrigðisnefndir fái jafnframt heimildir til álagningar stjórnvaldssekta. Hins vegar telur nefndin að slík útfærsla kalli á heildstæða skoðun sem fellur utan efnissviðs þessa frumvarps. Í ljósi þess hve íþyngjandi stjórnvaldssektir eru er einnig þörf á að skoða hvort ekki séu forsendur fyrir því að ákvarðanir um álagningu stjórnvaldssekta sæti sömu kæruleið og aðrar stjórnvaldsákvarðanir, þ.e. að hægt verði að skjóta slíkri ákvörðun til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, í þessu tilviki. Fái heilbrigðisnefndir heimild til álagningar stjórnvaldssekta er mikilvægt að hægt verði að kæra þessar ákvarðanir til að undirbyggja samræmda framkvæmd til viðbótar því samræmingarhlutverki Umhverfisstofnunar sem áður er getið. Ráðuneytið hefur boðað heildarendurskoðun laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og þar með beinir nefndin því til ráðuneytisins að við þá endurskoðun verði heilbrigðisnefndum falin heimild til álagningar stjórnvaldssekta.

Kafli er hér um framsal heimildar til fullnaðarafgreiðslu. Það kom fram almennur stuðningur við framsal valdheimilda sem lagt er til með 10. gr. frumvarpsins. Nefndin telur það auka verulega skilvirkni við afgreiðslu mála ef heilbrigðisnefndir geta falið framkvæmdastjórum heilbrigðiseftirlita eða tilteknum heilbrigðisfulltrúum heimild til fullnaðarafgreiðslu mála í einstökum málaflokkum. Um leið áréttar nefndin að sú skylda að bera slíkar ákvarðanir undir samþykki sveitarstjórna geti slegið verulega á skilvirknina. Meginástæðan er sú að sveitarfélög sameinast víða um heilbrigðisnefnd og getur þurft margar ákvarðanir sveitarstjórna um framsal. Þá þarfnast breytingar á samþykktum sveitarfélaga staðfestingar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins samkvæmt 9. gr. sveitarstjórnarlaga. Almennt er ekki kveðið á um verklag og fundarsköp samstarfsverkefna eins heilbrigðiseftirlits í samþykktum einstakra sveitarfélaga heldur í samþykktum byggðasamlaga, samstarfssamningum eða með sérstökum samþykktum stjórna og nefnda sem stýra slíku samstarfi. Nefndin telur farsælla að heilbrigðisnefndir ákveði sjálfar hvort leita þurfi samþykkis sveitarstjórna eða ekki. Að mati nefndarinnar er þörf á ákveðnum sveigjanleika í því hvernig heilbrigðisnefndir koma þessari heimild í framkvæmd. Þar af leiðandi leggur nefndin til breytingar þar að lútandi.

Um framlengingu á starfsleyfi segir að í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir sé ráðherra heimilt, ef ríkar ástæður mæla með því og að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og eftir atvikum heilbrigðisnefndar, að veita tímabundna undanþágu frá kröfu um starfsleyfi. Í framkvæmd hefur þessi heimild verið nýtt þegar gildistími eldra starfsleyfis hefur runnið út en útgefandi starfsleyfis ekki náð að gefa út nýtt starfsleyfi. Með frumvarpinu er lagt til að útgefanda starfsleyfis verði heimilt að framlengja gildistíma starfsleyfa á meðan nýtt starfsleyfi er í vinnslu, enda hafi fullnægjandi umsókn um nýtt starfsleyfi borist. Nefndin tekur undir þá breytingu enda eðlilegra að leyfisveitandi geti framlengt gildistíma starfsleyfis í stað þess að óska eftir undanþágu hjá ráðherra.

Um umhverfisupplýsingar er það að segja að nefndin fagnar sérstaklega að með frumvarpinu er lögð til breyting á skyldu rekstraraðila til að skila grænu bókhaldi á þá lund að tilteknum rekstraraðilum verði gert skylt að skila árlega til Umhverfisstofnunar skilgreindum upplýsingum, svo sem um losun mengandi efna frá hverri starfsstöð og um hráefnanotkun. Þannig koma fram betri og marktækari upplýsingar um losun og hráefnanotkun á landinu. Að mati nefndarinnar stuðlar það að bættu losunarbókhaldi Íslands, bættu yfirliti yfir kolefnisspor samfélagsgeira og verður upplýsingabanki þegar kemur að aukinni endurnýtingu úrgangs.

Um þvingunarúrræði er það að segja að með frumvarpinu er lögð til hámarksfjárhæð dagsekta og að þær falli ekki niður þrátt fyrir að málsaðili uppfylli skyldur sínar. Tilgangur þessa er að auka vægi dagsekta sem þvingunarúrræðis, enda er rekstraraðili líklegri til að grípa fyrr til aðgerða til úrbóta liggi fyrir að dagsektir falli ekki niður heldur komi til greiðslu. Fram kom að þetta úrræði er nú um stundir lítið notað í framkvæmd þar sem heilbrigðiseftirlitin kunna að sitja upp með ærinn kostnað ef dagsektir eru látnar niður falla, eins og lög hafa kveðið á um. Forvarnagildi þeirra að óbreyttu er því ekki nægjanlegt að mati nefndarinnar.

Fyrir nefndinni kom fram það sjónarmið að í stað þess að álagðar en óinnheimtar dagsektir falli ekki niður, þrátt fyrir að efndir eigi sér stað, verði kveðið á um að dagsektir falli í gjalddaga tveimur til þremur mánuðum eftir álagningu þrátt fyrir efndir. Ef tekin er ákvörðun um að leggja á dagsektir er viðkomandi aðila tilkynnt það og hefur hann þá tíma fram að gjalddaga til að bregðast við. Að öðrum kosti þyrfti hann að bera þungann af dagsektum frá fyrsta degi. Með því er kominn fram hvati fyrir viðkomandi til að efna skyldur sínar. Nefndin getur fallist á þessar röksemdir og leggur til breytingartillögu þar sem gjalddagi dagsekta er hafður tveir mánuðir frá álagningu þeirra.

Fyrir nefndinni kom fram að æskilegt væri að dagsektarákvæði væru í meira mæli samræmd í löggjöf. Nefndin tekur undir það sjónarmið en telur þó ekki forsendur til að ráðast í slíka vinnu að svo komnu máli. Eins og áður hefur komið fram hefur ráðuneytið boðað heildarendurskoðun laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og beinir nefndin því til ráðuneytisins að hafa hliðsjón af slíkum sjónarmiðum við þá endurskoðun.

Um gjaldskrár segir hér að nefndin taki undir þá breytingu sem lögð er til í frumvarpinu að við undirbúning eða breytingu á gjaldskrám sveitarfélaga þurfi ekki að afla umsagnar hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar. Tillögur um gjaldskrár eða breytingar koma frá heilbrigðisnefndum til sveitarstjórnar. Telja má víst að heilbrigðisnefndir séu langhæfastar til þess og óþarfi að yfirfara slíkar tillögur. Það hefur reynst íþyngjandi í framkvæmd.

Fleiri smávægilegar breytingar voru gerðar á þessum lið að frumkvæði nefndarinnar en ég rek þær eru ekki frekar. Þeim til viðbótar eru svo nokkrar breytingar sem hafa verið útskýrðar í nefndaráliti og eru lagatæknilegs eðlis.

Í stuttu máli leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með breytingunum sem hér eru lagðar til í sérstöku þingskjali og gerð var grein fyrir áðan. Þess ber að geta að sá sem hér stendur, Ari Trausti Guðmundsson, Hanna Katrín Friðriksson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Vilhjálmur Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álitið í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Bergþór Ólason og Karl Gauti Hjaltason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins þannig að undir skrifa til viðbótar við þá sem hér hafa verið nefndir Jón Gunnarsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, Helga Vala Helgadóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu og farið yfir þetta nefndarálit.