149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

umferðarlög.

219. mál
[12:31]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar góðu fyrirspurnir. Ég vil geta þess í upphafi svars míns að umhverfismálin voru ekki rædd síður en umferðaröryggismálin í nefndinni og var komið mikið inn á þau, sem er bara vel. Ég sé að nánast allt sem gerist í samgöngumálum og umferðarmálum í dag, þessi mikla gróska, tengist loftslagsmálunum og það er gott.

Varðandi hærri hámarksakstur er sú heimild fyrst og fremst til að greiða fyrir umferð, þar sem umferðaraðstæður leyfa að hægt sé að greiða fyrir umferð. Og greiðari umferð leiðir alltaf til minni losunar.

En talandi um það sem ég var að segja áðan eru orkuskiptin til þess að við notum eldsneyti og slík ökutæki miklu minna, en þau auka brennslu við aukinn hraða. Við fengum ekki miklar athugasemdir eða mikla umræðu um þetta. Hvernig sem þróunin verður töldum við þetta ekki vera stóra málið heldur að greiðari umferð myndi gera það. En það liggur fyrir að enginn vegur uppfyllir þetta nú þegar á Íslandi hvort sem er, þannig að ég held að þetta komi ekki til framkvæmda alveg strax.

Varðandi öryggis- og verndarbúnað á hjálmaskylduna eru helstu rökin þau að færri veigri sér við að hjóla úti ef þeir verði að nota hjálm. Við teljum að það eigi ekki við um unga fólkið, alveg klárlega ekki, og í þeim löndum þar sem hjólreiðanotkun er komin miklu lengra. Og þar mæla allir með hjálmanotkun, (Forseti hringir.) hvort sem það er skylda eða ekki.