149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

umferðarlög.

219. mál
[12:46]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar léttu bifhjólin er alveg ljóst að þau eru komin undir flokkinn létt bifhjól og þá gilda bifhjólalögin. Hjálmaskyldan kemur því ekki þar inn þar sem farið er út úr hjólreiðaskilgreiningunni.

Svo eru það reiðhjólin og þar eru nefnd sérstaklega rafknúin hjól, hvað þau falla undir. En munurinn þarna og ástæðan fyrir því að þetta er ekki það sama er þyngdin á hjólunum. Þótt þau komist ekki hraðar en þetta eru þau þyngri en venjuleg hjól og það eru oftast ungir krakkar á þeim. Þess vegna er þessi munur.

Skoðunarskyldan er út af EES-reglugerð, þannig að ekki er hægt að undanskilja bifhjól frá skoðunarskyldu. Við vildum sjá til þess að þetta yrði ekki of íþyngjandi og þess vegna sögðum við að taka þyrfti mið af eðlinu, þess vegna kemur það skýrt fram. Og til þess að þetta verði ekki of flókið er mikilvægt að hafa skráningarskyldu á þessum bifhjólum, sem EES-tilskipunin gerir líka ráð fyrir, þá sendum við skýr skilaboð og auðveldum eftirlit með því að það gilda reglur um létt bifhjól þarna en ekki um reiðhjól.

Hjálmanotkun var til umræðu fyrir nefndinni allan tímann og það að hækka skylduna upp í 16 ár, svo að skilaboðin til grunnskólabarna væru skýr. Varðandi norsku skýrsluna, Holland og fleiri lönd voru líka nefnd sem dæmi, þá er allt önnur hjólamenning þar og hún komin miklu lengra en hér. Við gátum ekki alveg séð ástæðu fyrir því að stoppa við 16 ára aldurinn og fannst eðlilegast að fara upp í 18 miðað við(Forseti hringir.) að við værum að þróa okkur og endurskoða það svo síðar.