149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

umferðarlög.

219. mál
[14:49]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir ágæta ræðu. Hann drap þar á nokkrum atriðum. Mig langar að staldra aðeins við hjálmana og þær breytingar sem verið er að leggja til núna í nefndarálitinu með að færa hjálmaskyldu upp í 18 ár. Ég hef verulegar efasemdir um að það sé endilega skynsamlegt að leggja þessa skyldu á. Eins og kom fram í máli hv. þingmanns eru hjólreiðar og hjólreiðar sitt hvað og í sumum tilvikum held ég að mjög skynsamlegt sé að vera með hjálm. Þó að ég geti ekki stært mig af því að vera mikill hjólreiðamaður hjóla ég þó stundum og set alltaf hjálm á höfuðið. Ég hef líka aðeins fengist við að aka mótorhjólum. Þar hvarflar ekki annað að mér en að vera með hjálm. Reyndar er það skylda í því tilviki.

Mér finnst einhvern veginn eins og það nái betur tilgangi sínum að vísa til skynsemi fólks og það meti það eiginlega hverju sinni og við hvert tilefni hvort það vill nota hjálm eða ekki. Ég held að boð og bönn séu ekki endilega heppileg, sérstaklega á þeim aldri sem er verið að tala um hér. (Forseti hringir.) Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji að forvarnagildinu eða verndinni sem þarna er verið að koma á (Forseti hringir.) sé virkilega heppilegasta leiðin að skylda unglingana til að bera hjálm, (Forseti hringir.) og hvort eigi ekki að beita öðrum aðferðum ef menn vilja.