149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

umferðarlög.

219. mál
[14:52]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Forseti þekkir það nú manna best að sá sem hér stendur er hrifinn af boðum og bönnum þegar þau eiga við. En ég held einmitt, eins og hv. þingmaður nefndi, að hér sé mögulega stigið aðeins of langt. Ég held að hjálmaskylda upp að einhverjum ákveðnum aldri geti verið gagnleg, geti verið mjög gagnleg í að byggja upp þá menningu meðal barna sem eru að stíga sín fyrstu skref í umferðinni, að þau séu eins örugg og hægt er, enda eru þau líkamlega á öðrum stað en eldri börn, 15 ára til dæmis. Jafnvægi hjá sex ára barni er allt annað en hjá 15 ára barni. Eða þyngdardreifing barna sem fæðast höfuðstór og jafnast svo að þyngd niður á við. Þeir hópar sem þurfa að vera með hjálm í umferðinni eru þeir hópar sem hættast er við að velti af baki, það eru börn, þó ekki alveg upp í 18 ára, og þeir sem fara hratt eða eru utan vega.

Dæmið sem nefnt er frá rannsóknarnefnd samgönguslysa í nefndarálitinu sýnir að ekki er kannski alltaf nóg að höfða til skynsemi þegar fólk er úti á þjóðvegum á háum hraða hjálmlaust. Ég held að í því tilviki hefði hjálmaskylda mögulega getað bjargað einhverju. En þegar við erum að stefna að því mjög meðvitað á ýmsum sviðum að auka hlut hjólreiða í þéttbýli þar sem hættan er ekki sú sama og í kappreiðum, þá held ég að við séum (Forseti hringir.) að stíga skref í ranga átt þar sem hjálmaskylda mun hafa þau áhrif að fleiri veigri sér við að nýta hjól (Forseti hringir.) sem samgöngumáta.