149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

umferðarlög.

219. mál
[14:54]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að hv. þingmaður hafi slegið naglann á höfuðið. Auðvitað er það hluti af því vandamáli sem menn eru að reyna að bregðast við að við erum með þessar mörgu tegundir af hjólreiðum og má kannski segja að að sumu leyti blandist illa saman hjólreiðar sem samgöngumáti, þar sem unglingar og fullorðið fólk notar hjól til að fara á milli staða og er kannski ekki endilega með helsta markmiðið að komast eins hratt og unnt er, heldur að bæta skap sitt, örugglega, og andlega líðan á leiðinni. En á sama tíma erum við með hjólreiðamenn sem hafa það að markmiði að fara sem hraðast yfir og sú blanda getur verið hættuleg og allt þetta teiknar til þess að við þurfum að standa okkur enn betur í því að skapa aðstöðu fyrir öruggar hjólreiðar og blanda kannski ekki saman kappakstri og hefðbundinni hjólamennsku sem samgöngumáta.

Síðan vil ég ítreka að það er auðvitað hlutverk foreldra að ala upp börn sín og leggja þeim lífsreglurnar. Ég held að það eigi foreldrar að gera.

Síðan held ég að ef menn trúa því í raun og sann að það sé skynsamlegt að nota hjálma við allar aðstæður eigi að nota til þess aðrar aðferðir, svo sem að fá þekkta (Forseti hringir.) hjólreiðamenn, sem hjóla um hjálmlausir, til að hjóla um með hjálma og vita hvort það geti orðið öðrum hjólreiðamönnum fyrirmynd ef menn telja það á annað borð, (Forseti hringir.) hvort það sé ekki vænlegra heldur en boð og bönn.

Og nú hef ég lokið ræðu minni, hæstv. forseti, í ræðustól og yfirgef hann.

(Forseti (BN): Forseti vill samt minna hv. þingmann á tímamörkin.)