149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

umferðarlög.

219. mál
[15:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Ég hjó eftir að þingmaðurinn talaði töluvert um þær breytingar sem á að gera samkvæmt tillögu nefndarinnar varðandi notkun reiðhjólahjálma. Svolítið sérstakt að líkja þessu saman við það, þ.e. að leggja það einhvern veginn að jöfnu hvort við viljum fjölga þeim sem hjóla eða bæta öryggi þeirra sem hjóla.

Margir fylgjendur þessa máls, eða þeir sem — við skulum orða það frekar þannig að einhverjir þingmenn sem eru á móti því eða telja varhugavert að nota lögin til að skylda fólk til að nota hjálma munu telja að það geti verið neikvætt að einhverju leyti, dragi t.d. úr vilja manna til að nota reiðhjól. Nú kann að vera nokkuð til í því. En sumir þingmenn telja hins vegar rétt að hækka t.d. kolefnisskatta og hefur Sjálfstæðisflokkurinn barist sérstaklega fyrir því að koma á kolefnissköttum á eldsneyti í þeirri von um að breyta hegðun bíleigenda. Það er eins og það sé í lagi að nota lög og reglur til að breyta hegðun bíleigenda en það má ekki gera það til að bæta hegðun þeirra sem nota reiðhjól.

Nú er það held ég óumdeilt, í það minnsta eru færð góð rök fyrir því í nefndarálitinu og frumvarpinu, að það að nota reiðhjólahjálm dregur verulega úr hættunni á alvarlegum meiðslum. Eins og hv. þingmaður benti á eigum við börn og höfum kannski barist um á hæl og hnakka við þau að nota hjálma þegar þau fara út að hjóla. Þess vegna fæ ég ekki rökstuðning þingmannsins alveg til að ganga upp, að við eigum ekki að leiða í lög eða breyta lögum í þá átt að fá fólk til að nota hjálma, ekki síst vegna þess að það er svo mikil áhersla á að auka hjólreiðar. Hvort er mikilvægara að fá fleiri til að hjóla eða að menn noti hjálma öryggisins vegna?