149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

umferðarlög.

219. mál
[15:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Það kann vel að vera að hægt sé að færa rök fyrir því að hvort tveggja sé mikilvægt, að fjölga þeim sem nota reiðhjól og auka um leið hjálmanotkun. En rökin sem þingmaðurinn var með í ræðu sinni að hún teldi varhugavert að leiða það í lög eða breyta lögum í þá átt að færa það til 18 ára aldurs, vegna þess að við værum að hvetja fólk til að auka hjálmanotkun. Það finnst mér sérkennilegt. Ég er á því að það eigi að skylda fólk til að nota hjálma og það eigi að byrja strax að skylda börnin til að gera það. Það er ótvírætt, það er óumdeilt að hjálmurinn veitir meira öryggi. Og það að fara með það upp í 18 ár er eingöngu til að auka öryggi þeirra sem hjóla. Ef eitthvað hægir á því að fólk, sem ég held reyndar að gerist ekki, ef fólk vill hjóla þá hjólar það hvort sem það er með hjálm eða ekki, og þá segi ég: Öryggið á að vera umfram hitt.

Ég hef líka velt fyrir mér, af því að hv. þingmaður kom inn á kolefnisskattinn, að ef á að nota jákvæða hvata, ef má orða það þannig, til að fá fólk til að hjóla, þ.e. að leiða þetta ekki í lög, af hverju á þá ekki að nota jákvæða hvata til að fá fólk til að skipta úr jarðefnaeldsneyti á bílum yfir í rafmagn eða eitthvað slíkt? Af hverju að vera með þessa neikvæðu hvata? Það hlýtur að vera hægt að færa rök fyrir hinu.

Einnig átta ég mig ekki á, herra forseti, rökunum fyrir því að þeir sem hjóla styttri leiðir þurfi ekki að nota hjálm, ef ég skildi hv. þingmann rétt. Það er eins og að segja að þeir sem ætla að keyra 5 km þurfi ekki að nota bílbelti eða kveikja ljósin á bílnum eða eitthvað slíkt vegna þess að það sé ekki eins hættulegt að keyra stutt og að keyra langt. En ekki þarf annað en að hjóla eða keyra út af bílastæði þá getur fólk lent í slysi og alvarlegu slysi. Lögfesting á hjálmum, hækka aldursmörkin, ég held að það sé til bóta.