149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[15:17]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég verð að taka undir þessi orð hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar. Ég hélt að ég væri næstur á mælendaskrá í umferðarlögunum og svo þarf ég greinilega að fara að fylgjast með heilbrigðisstefnunni sem ég veit að aðrir ætluðu að taka þátt í. Það er nógu erfitt í störfum þingsins að vita hvað er á dagskrá, jafnvel næsta dags. Í dag erum við með mjög langa dagskrá og vitum ekki einu sinni hvað er á dagskrá næst því að hoppað er fram og til baka í dagskránni. Það gerir allt skipulag og undirbúning, a.m.k. vegna þeirra mála sem við ætlum að taka þátt í í dag, mjög flókinn. Ég bið virðulegan forseta um að gera þetta kannski aðeins skýrara fyrir okkur þannig að það sé ekki verið að taka pásu í miðri umræðu í einu máli til að hoppa í miðja umræðu í öðru máli og svo aftur til baka eða hvernig það er. Þannig að: Vinsamlegast, takk.