149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[15:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að koma hér upp og inna hv. þm. Birgi Þórarinsson eftir því hvort hann hafi ekki lesið nefndarálitið og séð hvernig vinnu var háttað í nefndinni, í stað þess að telja bara upp það sem á móti kom? Við fjölluðum um þessi málefni og fengum fjölda gesta til okkar vegna málsins.

Mig langar að nefna fáein atriði sem hv. þingmaður kom inn á, t.d. forvarnir. Að mati meiri hlutans eru lýðheilsa og forvarnir hornsteinninn að góðu heilbrigðiskerfi. Meiri hlutinn tekur það fram í nefndaráliti við tillöguna að íslenskt heilbrigðiskerfi þurfi að taka tillit til þess og það er nefnt í stefnunni. Hefur hv. þingmaður ekki kynnt sér það? Finnst honum það ekki nauðsynlegt? Það var sérstaklega tekið fram í stefnunni. Við höfum sagt að þessi heilbrigðisstefna hafi verið svolítið háfleyg, en í aðgerðaáætluninni verður komið inn á nánari útfærslu.

Hvað varðar hjúkrunarheimilin var það niðurstaða okkar að við ættum ekki að nefna hjúkrunar- og dvalarrými sérstaklega í stigskiptingu heilbrigðiskerfisins þar sem á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar því að á fyrsta stiginu, heilsugæslunni, og öðru og þriðja stiginu værum við að sinna hjúkrunarheimilinum, því að þar er fólk sem á heima á slíkum stöðum. Ég held að það fólk verði ekki þjónustað öðruvísi en aðrir þegnar landsins. Langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort hann telji það ekki vera ásættanlega niðurstöðu.