149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[15:47]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu stjórnvalda og ég get í sjálfu sér tekið undir margt í nefndaráliti meiri hlutans. Í stefnunni sjálfri er ýmislegt gott að finna sem hv. þingmenn úr velferðarnefnd og aðrir hafa að sjálfsögðu gert góð skil hér á undan mér þó töluvert sé um liðið.

Þó að ég geti tekið undir margt í nefndaráliti meiri hlutans um það sem sagt er um stefnuna, hef ég meiri athugasemdir við annars vegar það sem ekki er í stefnunni og hins vegar og ekki síður við þá aðferðafræði sem liggur til grundvallar þessari vinnu og síðan því plaggi sem við erum að fjalla hér um.

Sem tillaga um heilbrigðisstefnu ríkisstjórnarinnar til næsta áratugar er þessi stefna ekki mjög bitastæð. Það er nokkuð ljóst að heilbrigðisáætlun heilbrigðisráðherra, sem er væntanleg í haust og þaðan í frá á hverju ári til fimm ára í senn, er það sem taka skal mark á. Þar verður pólitíkin og fyrirætlan ráðherra væntanlega í einstaka málaflokkum ásamt yfirlýstum markmiðum, aðgerðabindingum og þess háttar, nokkuð sem allhressilega er skautað yfir í þessu stefnuplaggi.

Það má síðan spyrja hvort ástæða sé til að hafa áhyggjur af því að eitthvað vanti í þessa stefnu þar sem áætlun til fimm ára er væntanleg innan einhverra mánaða. Þegar betur er skoðað er reyndar full ástæða til þess að hafa einmitt áhyggjur af þessu ferli. Í ljós kom þegar umsagnir fóru að berast til velferðarnefndar og fundað var með gestum, að mikill munur var á því hvernig samráð var haft við tiltekna hagaðila innan heilbrigðiskerfisins. Þegar litið er til þess að hæstv. heilbrigðisráðherra og heilbrigðisyfirvöld virðast telja þessari stefnu helst tekna hversu mikið og gott samráð hefur verið haft við alla þá sem máli skipta er býsna auðvelt að lesa það sem skrifað er í skýin. Ég ætla að koma nánar að því hér á eftir.

Eins og margoft hefur komið fram í umræðunni hér er í stefnunni lögð áhersla á sjö meginviðfangsefni sem styrkja eiga grunnstoðir heilbrigðisþjónustunnar. Í kaflanum „Rétt þjónusta á réttum stað“ er talað um að heilbrigðisþjónustan verði skilgreind sem fyrsta stigs, annars stigs og þriðja stigs þjónusta. Fyrsta stigið er heilsugæslan, sem er gott og mikilvægt markmið og reyndar kannski það sem menn hafa náð einna lengst með. Síðan er það annars stigs þjónusta, sem er skilgreind sem sérfræðiþjónusta utan sjúkrahúsa, og svo er það þriðja stigið sem er Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri.

Raunar má segja að annað stigið sé samkvæmt þessu allt annað en heilsugæsla á fyrsta stigi og Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri á þriðja stigi. Fram kemur í stefnunni að sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu sé fyrst og fremst um að ræða sjálfstætt starfandi sérfræðinga af ýmsum toga, á öðru stigi, en það stig eigi þó ná til meira eða minna allra heilbrigðisstofnana landsins fyrir utan þessar tvær stóru stofnanir eða hluta þeirrar þjónustu sem þær veita. Þannig að annað stigið er orðið ansi stórt og viðamikið. Enn fremur er ljóst að þarna er töluverð skörun vegna þess að þjónustan á göngudeildum og dagdeildum spítalanna tveggja er að mörgu leyti sambærileg við sérfræðiþjónustu á læknastofum og læknamiðstöðvum.

Ef það er markmiðið með þessu að gera tegund eða uppruna þjónustuveitandans aðalatriði þá skil ég ekki alveg hvað liggur þar undir. Helst myndi ég vilja sjá skipulag heilbrigðisþjónustunnar á þann veg að á sem flestum sviðum hefðu sjúklingar val um þjónustuveitendur. Smæð okkar ágæta samfélags gerir það að verkum að það er ýmislegt sem fellur undir starfsemi Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri sem ekki verður gert annars staðar. Að sama skapi eru gráu svæðin fjölmörg og þeim fer fjölgandi með tækninýjungum ýmiss konar sem geta og munu gjörbreyta því hvernig við nálgumst heilbrigðismálin heilt yfir. Ég myndi vilja sjá þróun á annars stigs þjónustu í samræmi við þarfir og óskir þeirra sem nota þjónustuna.

Í stefnunni er komið inn á mönnunarvandann undir kaflanum „Fólkið í forgrunni“. Sá vandi er náttúrlega mjög stórt úrlausnarefni, svo stórt að það er ekki á færi hinna færustu heilbrigðisráðherra að leysa það einir og óstuddir. Þetta er samfélagsmál. Vandinn hefur aukist gríðarlega á síðustu árum, ekki síst meðal hjúkrunarfræðinga. Ég get ekki annað en notað tækifærið hér og vakið athygli á tillögu þinghóps Viðreisnar og fleiri góðra þingmanna þar sem við töluðum um að leggja í það átak að jafna kjör kvennastétta.

Hér er að miklu leyti um að ræða kvennastéttir, ég minni á það. En það eru alls ekki bara launin sem skipta máli varðandi mönnunarvandann. Kulnun í starfi meðal heilbrigðisstétta verður sífellt meira aðkallandi úrlausnarefni. Það er mikilvægt að finna svör við þeirri neikvæðu þróun og leiðir til að snúa henni við. Þetta hlýtur að þurfa að vera eitt helsta leiðarljósið við mótun stefnu í heilbrigðisþjónustu til framtíðar. Í umræðu um þessi mál meðal heilbrigðisstétta hefur ítrekað komið fram að það er álag, vinnuaðstæður og vinnufyrirkomulag, ekki síst vaktavinnan, sem sífellt fleira fólk hafnar sem hluta af lífsstíl sínum, sem eru helstu ástæður kulnunar. Líka takmarkaðir möguleikar á því að hafa áhrif á fyrirkomulag vinnunnar og þeirrar þjónustu sem veitt er.

Svo er kafli um virka notendur. Það er mikilvægt að stjórnmálamenn hafi í huga að heilbrigðiskerfið sem þeir bera ábyrgð á, er fyrir notendur. Það ber ekki vitni um góða þjónustu að koma í veg fyrir að notendur hafi val ef það er mögulegt. Þetta á við um heilbrigðisþjónustu líka. Markmiðið á að vera að veita heilbrigðisþjónustu eftir þörf og leiðarljósið á að vera hagsmunir landsmanna, réttur landsmanna, ekki skipulag þjónustuveitanda, ef þeir uppfylla settar reglur um gæði, öryggi og kostnað.

Í kaflanum „Hugað til framtíðar“ er drepið á mikilvægi menntunar, nýsköpunar og vísinda. Íslensk heilbrigðisþjónusta þarf nýsköpun. Hún þarf að tileinka sér tækninýjungar. Dæmin sýna það alls staðar, ekki bara innan heilbrigðisgeirans, að slíkt gerist frekar í umhverfi þar sem fólk getur brugðist hratt við, hefur færi á að prófa nýja hluti og hefur almennt aðstæður og hvata til að vinna að nýsköpun. Það getur vissulega gerst innan ríkisrekna kerfisins eins og þess einkarekna, en það þarf að búa til umhverfi þar sem nýsköpun þrífst og dafnar. Það gerist ekki af sjálfu sér.

Þess vegna var sorglegt að verða vitni að stöðu heilbrigðisvísinda á Landspítala sem um áratugaskeið hefur verið flaggskip slíkrar starfsemi hér á landi, og það ekki bara innan heilbrigðisvísinda heldur vísinda almennt, held ég að sé óhætt að fullyrða. Samkvæmt tölulegum upplýsingum er Landspítalinn á niðurleið varðandi rannsóknir og fær minna en önnur háskólasjúkrahús á Norðurlöndum. Í ljósi þess að það er almennt viðurkennt að gæði vísindastarfs og síðan klínískrar þjónustu haldast í hendur þá er mikilvægt að vel sé staðið að málum hér. Ég hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til dáða.

Ég átti orðastað við hæstv. ráðherra um þessi mál í þingsal í umræðu um fjármálaáætlun ríkisstjórnar í lok mars. Þar tók ráðherra undir að það væri sérstakt áhyggjuefni að Landspítalinn hefði verið að missa flugið undanfarin ár þegar kæmi að vísindastarfi. Hæstv. ráðherra tiltók sérstaklega að það væri áhyggjuefni vegna þess að um háskólasjúkrahús er að ræða sem þyrfti að vera samkeppnisfært við háskólasjúkrahús í löndunum í kringum okkur, um bestu mögulegu starfskrafta og vísindafólk. Það er nefnilega í mörg horn að líta þegar kemur að því að mæta mönnunarvandanum. Tækifæri fagfólksins okkar liggja víða eins og vera ber, ekki bara hér innan lands.

Herra forseti. Ég er býsna langt komin með ræðutímann og hef ekki drepið á nær öllu því sem mig langar að ræða. Svolítill tími hefur farið í rekstrarformið, mikilvægi fjölbreytileikans, ekki endilega af því að mér þykir það alfa og omega alls þegar kemur að heilbrigðismálum heldur frekar að því að mér þykir mikilvægi fjölbreytileikans hér of mikið til að verðskulda þá útreið sem sú hugmyndafræði fékk við vinnu stefnunnar. Heilbrigðiskerfið okkar er okkar mikilvægasta kerfi, okkar kostnaðarsamasta kerfi og skiptir gríðarlega miklu máli að þar ráði skynsamleg nýting fjármuna og skilvirkni.

Samhliða því hlýtur að vera svo að þjónusta við sjúklinga skipti öllu þegar kemur að heilbrigðiskerfinu, ekki hver veitir þá þjónustu. Að sjúklingar geti treyst því að þeir geti fengið örugga góða og tímanlega þjónustu í heilbrigðiskerfinu okkar þegar þörf er á. Einhvern veginn svona var inntakið í ræðu hv. þingmanns Viðreisnar, Þorsteins Víglundssonar, þegar hann átti orðastað við hæstv. heilbrigðisráðherra Svandísi Svavarsdóttur fyrir nokkrum vikum um biðlistafarganið og þrjósku ráðherra gagnvart því að líta út fyrir ríkisrekna rammann varðandi lausnir.

Gagnrýni þingmannsins virtist fara illa í hæstv. ráðherra sem svaraði með því að Viðreisn talaði hér ítrekað fyrir hagsmunum þeirra sem eru seljendur heilbrigðisþjónustu á einkamarkaði, eins og það var orðað af ráðherranum. Við gættum hagsmuna þeirra sem vildu tína út ábatasömustu þjónustuþættina til þess eins að hagnast á veiku og slösuðu fólki.

Það eru stór orð, herra forseti, eins og oft falla hjá rökþrota fólki. Ég tek það ekki sérstaklega nærri mér. Við tökumst hér á um pólitík daginn út og inn og látum annað eins flakka. En mér þótti miður að heyra þetta viðhorf hæstv. ráðherrans til þeirra fjölmörgu fagaðila og sérfræðinga í heilbrigðisþjónustunni sem ekki starfa hjá ríkisreknum stofnunum og eru þar með, svo ég vitni ráðherrann, að hagnast á veiku og slösuðu fólki. Heilbrigðisráðherra mun fá fjölmörg tækifæri til að senda mér og félögum mínum í Viðreisn skeyti, því að fyrr mun frjósa í því neðra en að við hættum að tala máli notenda heilbrigðisþjónustunnar, heilbrigðisstarfsmanna og skattgreiðenda almennt, með því að leggja áherslu á þessi mál. Íslenskt heilbrigðiskerfi þarf að nýta fjármagnið vel. Einokun þjónustuveitenda, sama hvaða nafni þeir nefnast, er mjög ólíklega leiðin til þess.

Fjölbreytileiki er svarið svo lengi sem tryggt er að allir gangist undir sömu gæðakröfur og séu fjármagnaðar á sama hátt. Ég minni á að heilbrigðiskerfið er opinbert kerfi. Um það ríkir samfélagsleg sátt og innan þess kerfis þurfa að þrífast mismunandi form vegna þess að það er þannig sem kerfið þjónar tilgangi sínum og notendum best.

Velferðarnefnd bárust 38 umsagnir við málið á meðan á vinnunni stóð. Ég ætla hér fyrst að drepa niður í umsögn frá Samtökum atvinnulífsins upp á tvær og hálfa síðu sem kjarnar málið nokkuð vel. Inngangurinn er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Markmið heilbrigðiskerfisins er að veita sjúklingum fyrsta flokks þjónustu um leið og metnaðarmál stjórnvalda á að vera að nýta fjármagn sem best og reka kerfið eins hagkvæmt og kostur er. Heilbrigðiskerfinu stafar ekki ógn af sérhæfðri sjúkrahúsþjónustu á vegum annarra en hins opinbera með greiðsluþátttöku frá ríkinu á sömu forsendum og þjónusta hins opinbera.“

Það er kjarni málsins, herra forseti. Séu forsendurnar þær sömu, sé rétt gefið, stafar engin ógn af fjölbreytileikanum. Miklu nær væri að tala um tækifæri.

Herra forseti. Ég nefndi áðan þetta með samráðið. Mér finnst það skipta máli og eins og ég sagði kom í ljós þegar umsagnir fóru að berast til velferðarnefndar og fundað var með gestum, að mikill munur var á því hvernig samráð hafði verið haft við tiltekna hagaðila innan heilbrigðiskerfisins. Í framsöguræðu hæstv. heilbrigðisráðherra frá því í janúar kom fram að þegar stefnan hefur verið samþykkt hér í þingsal verði gerðar heilbrigðisáætlanir til fimm ára í senn en uppfærðar árlega meðan heilbrigðisstefnan er í gildi.

Heilbrigðisráðherra mun síðan leggja þessar áætlanir heilbrigðisstefnunnar fram til umræðu á Alþingi ár hvert. Ekki til afgreiðslu velferðarnefndar heldur bara til þess að gera þinginu grein fyrir því hverjar aðgerðirnar eru í samræmi við hvern kafla heilbrigðisstefnunnar; hvað standi til, hvaða skref eigi að taka o.s.frv., ekki til afgreiðslu velferðarnefndar eða hér í þingsal heldur til upplýsingar.

Þær 38 umsagnir sem bárust áttu það flestar, ef ekki allar, sammerkt að fagna því að verið væri að vinna að stefnu í heilbrigðismálum. Allir voru sammála því að það væri gríðarlega mikilvægt að unnið væri eftir skýrri stefnu í þessum risastóra og mikilvæga málaflokki.

Annar samhljómur var þar sem velflestir söknuðu ítarlegrar umfjöllunar, eða bara umfjöllunnar yfir höfuð, um tiltekna málaflokka, allt frá þeim allra stærstu yfir í smærri. Þeirri gagnrýni var svarað af hálfu heilbrigðisráðherra og heilbrigðisyfirvalda, á fundum nefndarinnar á þann hátt að með þessari stefnu væri ætlunin að leggja stóru línurnar. Það kæmi að einstökum málaflokkum síðar.

Rétt er að halda því til haga að sú vinna er hafin í mörgum málaflokkanna. Það breytir ekki þeirri staðreynd að þetta plagg, sem ber heitið Heilbrigðisstefna til ársins 2030, nefnir varla til sögunnar þætti sem allir sjá að skipta gríðarlega miklu máli þegar kemur að því að leggja heildarlínur. Ég er að tala um geðheilbrigðismál, öldrunarþjónustu, meðferð við fíknisjúkdómum með endurhæfingu, hjúkrunarheimili o.s.frv. Listinn er nokkuð langur.

Hið yfirlýsta markmið hér er sem sagt að leggja línur sem þolað geta tímans tönn og síðan geti hver ráðherra á líftíma stefnunnar komið sinni pólitísku sýn á framfæri innan hennar. Það er rétt og eðlilegt í sjálfu sér að haga málum þannig. En þá komum við aftur að þessu með samráðið. Hverjum var boðið að koma að borðinu til að móta þessar mikilvægu stóru línur? Línur sem munu, ef fram fer sem horfir, verða ramminn utan um pólitískar aðgerðir heilbrigðisráðherra.

Það væri óðs manns æði að fjalla ítarlega um hverja af þeim 38 umsögnum sem bárust en áhugasömum er bent á að þær er að finna á vef Alþingis. Ég ætla hins vegar að gera einni þeirra sérstaklega hátt undir höfði hér. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu eru hagsmunasamtök fyrirtækja sem ekki eru ríkisrekin fyrirtæki en starfa á heilbrigðissviði samkvæmt þjónustusamningi eða öðrum tengdum greiðslum frá ríkinu, t.d. daggreiðslum.

Innan samtakanna eru tæplega 50 fyrirtæki, félagasamtök og sjálfseignarstofnanir, þar með talið flest hjúkrunarheimili landsins, greiðslur ríkisins til aðila innan Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu nema um 15% af heildarútgjöldum ríkisins til heilbrigðismála á ári. Upphæðin nemur um 30 milljörðum kr. Í umsögn sinni lýsa Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu því samráðsleysi sem viðhaft var við vinnslu þessarar stefnu. Samráðsleysi við valda aðila, ansi marga og mikilvæga valda aðila. Í umsögninni er vissulega farið jákvæðum orðum um heilbrigðisþingið sem haldið var síðastliðið haust.

Svo segir, með leyfi forseta:

„Orðið Landspítali (í einhverri mynd orðsins) kemur 44 sinnum fyrir í heilbrigðisstefnunni. Sjúkrahúsið á Akureyri kemur 9 sinnum fyrir í heilbrigðisstefnunni og Heilsugæslan (eða heilsugæsla) kemur 49 sinnum fyrir í stefnunni. Endurhæfing fær enga efnislega umfjöllun í stefnunni og orðið hjúkrunarheimili kemur aldrei fyrir í heilbrigðisstefnunni. Afleiðing þessa er að engin efnisleg umræða varð um þessa mikilvægu þætti heilbrigðiskerfisins á heilbrigðisþinginu, þar sem engin gögn voru til að rýna.“

Í umsögn sinni benda samtökin á að stefnan öll og umræður um hana miðist við þær stofnanir og þá hluta heilbrigðiskerfisins sem komu að gerð stefnunnar á upphafsstigum og þar var dregin skýr lína. Skortur á umræðu um tiltekna efnisflokka annars vegar og önnur atriði á borð við rekstrarform er bein afleiðing þess að ekki var haft samráð við þá aðila sem þar þekkja best til við undirbúning vinnunnar. Svo mörg voru þau orð og reyndar voru fleiri orð um þessi vinnubrögð, en ég stikla hér á stóru. Efnislega sammála um þetta atriði voru umsagnir frá Félagi heilbrigðisfyrirtækja, Læknafélagi Íslands og Læknafélagi Reykjavíkur og fleiri aðilum.

Herra forseti. Mig langar rétt í lokin að nefna umsögn frá Virk – Starfsendurhæfingarsjóði. Í umsögn sinni telur Virk rétt að benda á að það veiki heilbrigðisáætlunina að ekki sé minnst á endurhæfingu, sem sé mikilvægur þáttur heilbrigðiskerfisins. Það sé ekki minnst á mikilvægi þess að verja og auka færni einstaklinga, ekki síður en veita hefðbundna meðferð. Færni kunni nefnilega að verða einn af aðalheilbrigðisvísum framtíðar í samfélögum sem einkennast af langvinnum heilsufarsvandamálum og minnkandi þátttöku þrátt fyrir bætta heilsu, samkvæmt núverandi heilbrigðisvísindum.

Hér má geta þess að samkvæmt niðurstöðum skýrslu sem Vigfús Ásgeirsson tryggingastærðfræðingur vann fyrir stjórn Virk og var kynnt nýverið, var ríflega 17 milljarða kr. ávinningur af starfsemi Virk árið 2018. Halda mætti að það væri a.m.k. einnar messu virði að hafa annað augað á þeim árangri þegar unnið er að heilbrigðisstefnu á Íslandi til næstu ára.

Herra forseti. Það er jákvætt að hér skuli hafa verið stigið það skref af hálfu stjórnvalda að fara í vinnu við mótun heilbrigðisstefnu til lengri tíma. Eftir slíku höfum við lengi kallað og gildir þá einu hvort um er að ræða þá sem veita þjónustu eða þá sem þiggja hana. Það er hins vegar vont að það skuli vera slík gjá á milli heilbrigðisyfirvalda og fjölda aðila sem um áratugaskeið hafa verið hryggjarstykkið í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Það hlýtur að vera stjórnvöldum umhugsunarefni. Það ætti a.m.k. að vera það.

Ég tel einsýnt að þessi heilbrigðisstefna verði samþykkt hér á næstu dögum, en ég kalla eftir því að hv. þingmenn sofi ekki á verðinum og fylgi málum vel eftir, eins vel og þeir yfir höfuð geta miðað við það hvernig lagt var í þessa vegferð af hálfu stjórnvalda. Þau gerast ekki öllu mikilvægari, málin, fyrir almannahag.