149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[16:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Í mínum huga er það áhyggjuefni ef það er þannig í heilbrigðisstefnu sem nú stendur til að samþykkja á Alþingi að ekki sé tekið föstum tökum á t.d. þeim þremur atriðum sem hv. þingmenn hafa verið að ræða, þ.e. að samráðsleysi við til að mynda dvalar- og hjúkrunarheimili, að þau séu í rauninni samningslaus, ekki samið við þau. Það er ekki nóg að hafa falleg orð á blaði í einhverri stefnu ef þeim er ekki fylgt eftir með markmiðum. Þess vegna er spurning hvort það sé trúverðugt að leggja svona stefnu fram án þess að það sé tímasett fjármögnun og eitthvað slíkt samhliða.

Varðandi biðlistana er rétt hjá þingmanninum að þeir virðast hafa verið að lengjast. Þingmaðurinn nefndi réttilega að réttlætanlegt væri að semja við aðila úti í bæ, ef má orða það þannig. Hefur hann einhverja skýringu á því hvaða fyrirstaða er fyrir því að það sé þá gert? Við þekkjum öll söguna undarlegu um liðskiptaaðgerðir og það allt saman. Af hverju er ekki gengið til samninga við aðila fyrir utan sjúkrahúsin til að létta á öllum biðlistum? Það er kannski stóra spurningin.