149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[16:27]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Við fjöllum um heilbrigðisstefnu ríkisstjórnarinnar, hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég verð að segja að auðvitað er gott og gilt að horfa bjartsýnum augum fram á veginn og klæða raunveruleikann í kjól sem í rauninni passar honum ekki. Það er nákvæmlega þannig sem mér líður gagnvart heilbrigðiskerfinu almennt í dag.

Ég hefði gjarnan viljað sjá talað meira í heilbrigðisstefnunni um lausnir á þeim gríðarlega vanda sem við er að etja í heilbrigðiskerfinu og eru nokkrir þættir sem mig langar sérstaklega að nefna. Við höfum talað um það á hinu háa Alþingi, mörg okkar, hvernig kerfið bregst þeim sjúklingum sem þurfa að leita til þess. Við skulum líta til þess að boðað hefur verið að ekki eigi að mismuna okkur eftir búsetu. Við eigum öll að geta nýtt okkur heilbrigðisþjónustu og má ekki mismuna okkur eftir búsetu. Hvað þýðir það þegar fárveikur sjúklingur þarf jafnvel að bíða í heila klukkustund eftir sjúkrabíl, samanber á Borgarfirði eystra? Ég nefndi það í störfum þingsins um daginn að upp kom sú staða að slasaður einstaklingur þurfti að bíða í rúma klukkustund eftir að fá aðstoð heilbrigðisfulltrúa sem þurfti að koma alla leið frá Egilsstöðum því að enginn var á staðnum í þessu litla þorpi og engin úrræði í raun og veru.

Til mikils láns var læknir á staðnum sem gat í þessu tilviki gripið inn í en hann hafði ekkert í höndunum. Hann hafði ekki deyfilyf, hann hafði í rauninni engar sjúkravörur til að sinna því verki sem hann hefði gjarnan viljað sinna. Þess vegna þurfti að fylla viðkomandi sjúkling af koníaki. Ég veit ekki alveg, virðulegi forseti, hvort það er sú stefna sem við viljum sjá næstu árin. Mér finnst sú þróun sem hefur orðið í heilbrigðismálum í höndum hæstv. heilbrigðisráðherra stefna hraðbyri aftur á bak.

Nú skulum við tala um nokkur mál sem eru mér hjartans mál og þar sem mér hefur fundist við vera að fara gjörsamlega úr öskunni í eldinn. Fyrst er það ópíóíðafaraldurinn. Ég veit að mjög margir landsmenn fylgjast með bæði Kastljósi og Kveik. Í Kveik var um daginn sýnt hvernig farið er með lyf, hvernig þeim er ávísað til mjög veikra einstaklinga. Talað var um krabbameinsveikt fólk sem hafði fengið svo mikið af lyfjum að þótt það væri löngu fallið frá voru enn til lyfjabirgðir á heimilinu að andvirði um 600.000 kr.

Stór hluti af lyfjunum er ópíóíðar, rosalega sterk verkjalyf. Slíkum lyfjum er safnað saman og þarf að eyða þeim í tuga tonna vís á ári hverju. Þetta er enn ein undarleg forgangsröðun fjármuna sem við horfum upp á, það að niðurgreiða lyf um milljónir og milljarða á ári og eyða þeim svo einfaldlega.

Hvar er fyrirhyggjan þarna miðað við hvað löggjafinn er duglegur við að vera með forræðishyggju gagnvart borgurunum og setja okkur lög og reglur sem er eins gott að við fylgjum?

Á sama tíma horfum við upp á dauðsföll sem aldrei fyrr vegna neyslu á morfínskyldum lyfjum, svokölluðum ópíóíðum. Það kemur í ljós í skýrslu landlæknis, sem er nýútkomin, að á árinu 2018 létust 39 einstaklingar sannarlega vegna eitrunar af völdum morfínlyfja.

Virðulegi forseti. Það er ekkert í heilbrigðisstefnu heilbrigðisráðherra til 2030 sem tekur á nokkurn hátt tillit til þess að ná eigi þeim fallegum markmiðum sem þar eru, sem mér finnst vera eins og kosningaloforð klædd í kjól sem passar þeim ekki. Það er ekki er nóg að segja „mig langar“ og „ég vil sjá þetta svona og hinsegin“ þegar ekki eru neinar úrbætur í sjónmáli. Það er alltaf gott að hafa stefnu en það verður líka að segja hvað liggur að baki henni. Hvernig á að ná þeim markmiðum sem að er stefnt? Skiptir það engu máli?

Í þessu tilviki er algerlega ólíðandi að við skulum vera búin að veita 150 millj. kr. aukafjárveitingu, gerðum það fyrir jólin í fyrra, til að koma til móts við fíkla, áfengissjúklinga sem biðja um hjálp á sjúkrahúsinu Vogi. Það er ekki nóg með að við höfum veitt þá fjármuni heldur hafa þeir ekki enn þá fengið þá greidda að undanskildum 6,9 millj. kr. á árinu 2019.

Jú, það má ekki greiða afturvirkt og ég veit ekki hvað og hvað. En hvernig á maður að geta skilið það þegar löggjafinn sjálfur, fjárveitingavaldið, gefur út ákveðin skilaboð, sendir þau til stjórnsýslunnar, þeirra sem eiga að vinna að því að koma þeim í framkvæmd, og svo gerist það ekki, heldur taka í þessu tilviki Sjúkratryggingar Íslands sig til og gera viðkomandi fulltrúum nánast ómögulegt að fylgja eftir þeim kröfum sem til þeirra eru gerðar, til þess að fá greitt það sem við boðuðum að yrði greitt.

Þetta á líka við um 276 millj. kr. aukafjárveitingu til heilbrigðisþjónustunnar sem lýtur að hjúkrunarheimilum og umsýslu um allt land. Það er ekki búið að borga krónu af því enn þá. Það er alveg með ólíkindum að ætla að horfa á einhverja framtíðarheilbrigðisstefnu til ársins 2030 þegar ekki er einu sinni hægt að gera svo lítið að fylgja eftir því sem við erum þegar með í hendi.

Þá skulum við tala um utanspítalaþjónustuna. Ég fór aðeins inn á hana áðan þegar ég benti á hvernig hún virkaði á Borgarfirði eystra, þegar viðkomandi var fylltur af koníaki. Ég hef líka talað um hvernig farið er með litlu sveitarfélögin úti um allt land þegar sjúkrabílarnir eru teknir af þeim, t.d. á Ólafsfirði. Sjúkrabíllinn sem hefur verið þar, sem hefur verið öryggisventill fyrir þetta litla sveitarfélag, var færður til Siglufjarðar af því að nú er þetta sameiginlegt sveitarfélag sem heitir Fjallabyggð. Það eru því tveir sjúkrabílar á Siglufirði, bæði sá sem var á Ólafsfirði og hinn sem fyrir var á Siglufirði. Þegar sjúklingur eða annar einstaklingur dettur niður á Ólafsfirði og enginn veit hvað er að honum þar sem hann engist á gólfinu, — ég hef heyrt svona sögur þótt ég ætli ekki að nefna nein nöfn — og viðkomandi hringir í þessa frábæru utanspítalaþjónustu þá ansar hjúkrunarfræðingur á Landspítala – háskólasjúkrahúsi.

„Hvað get ég gert fyrir þig sem ert að hringja í mig?“ Viðkomandi svarar: „Get ég fengið samband við lækni? Ég veit ekki hvað er að systur minni en hún er nánast rænulaus á gólfinu.“ Nei, það er ekki hægt heldur er spurt um og hitt og þetta og „þú verður fyrst segja mér það, annars færðu ekki samband við lækni.“

Ég átta mig ekki alveg á því hvert við stefnum en mér finnst það ekki vera í rétta átt. Það ætti a.m.k. að segja satt og rétt frá því og kalla hlutina réttum nöfnum. Það er verið að draga úr heilbrigðisþjónustu við landsbyggðina svo um munar. Það er verið að skapa aukið óöryggi hjá fólki á landsbyggðinni. Ég veit ekki hvort þetta er liður í því að allir fari á malbikið í 101 Reykjavík en alla vega líður fólki, fjölskyldufólki, fólki með lítil börn, ekki vel þegar það veit að það þarf að bíða í hálftíma og jafnvel klukkutíma eftir viðunandi hjálp ef eitthvað kemur upp á.

Mig langar að vísa í ágætan mann sem við þekkjum öll og það er núverandi bæjarstjóri í Fjallabyggð, Gunnar Birgisson. Hann tjáði mér það sjálfur fyrir rúmu ári síðan að hefði hann orðið fyrir sínu áfalli á Ólafsfirði og hnigið þar niður en ekki hinum megin við göngin, á Siglufirði, þá væri hann löngu dauður.

Það er einfaldlega verið að benda á að hver mínúta skiptir máli. Hvers vegna virðum við ekki líf borgaranna jafn mikið úti um allt land? Mér finnst það ágæt spurning sem er ástæða til að ræða.

Eins og ágætur samflokksmaður minn hefur gjarnan sagt berjumst við náttúrlega öll í málefnum þeirra sem minna mega sín í samfélaginu og í framhaldi af því skulum við tala um biðlistana. Að hugsa sér, við erum að tala um niðursveiflu í hagkerfinu. Það er jafnvel verið að boða ágætlega mjúka lendingu, hvað svo sem það þýðir því að í raun og veru þyrfti að breyta því öllu vegna þess að forsendur framtíðarfjármálastefnunnar tóku óvænta sveiflu, eins og við þekkjum öll. En viti menn, forgangsröðun fjármuna. Það er virðist vera algjörlega bannað að Sjúkratryggingar semji við sérfræðinga hér, bæklunarlækna og sérfræðinga sem geta gert aðgerðir á einkastofum úti í bæ. Frekar skal safna upp biðlistum í boði hæstv. heilbrigðisráðherra, nema ef sjúklingur hefur beðið í meira en þrjá mánuði, þá á hann rétt á því að sækja þjónustuna til annarra landa.

Þeirri þjónustu hefur sannarlega vaxið fiskur um hrygg því að hún hefur sexfaldast. Það eru sex sinnum fleiri sem hafa sótt til útlanda eftir liðskiptaaðgerðum frá því árið 2016. Kostnaðurinn hefur sjöfaldast, hvorki meira né minna. Með hverjum sjúklingi sem þarf að fara til útlanda í aðgerðir er greiddur samferðamaður, dagpeningar, uppihald, flug. Það er með hreinum ólíkindum hvernig er verið að múra okkur inni í einhverju og svo er talað um að við eigum að vera framsækin og horfa fram í tímann og megum ekki sitja föst í gamla farinu. Í sambandi við heilbrigðiskerfið og það sem lýtur að þessu þá er verið að skjóta okkur fleiri ár aftur í tímann. Það er ekki flóknara en svo.

Hér ríkir greinilega einbeittur vilji til að spara aurinn og kasta krónunni. Ég segi, virðulegi forseti, betur má ef duga skal.

Í heilbrigðisstefnunni skortir líka mikið á að mínu mati að meira sé fjallað um endurhæfingu, öldrunarþjónustu, lýðheilsu, forvarnir, dvalar- og hjúkrunarheimili, geðheilbrigðismál. Það vantar skýrari stefnumótun um þau atriði. Það er frábært að setja sér markmið, það er frábært að vera með heilbrigðisstefnu en það er lágmark að sýna fram á hvernig á að ná markmiðunum. Hvernig á að ná þeim?

Við horfum upp á lengri biðlista og það hvernig í raun er verið að einangra þorp úti á landi og nánast láta fólk búa í ótta við að fá ekki þjónustu sem var jafnvel í boði fyrir 50 árum, hugsið ykkur, þegar ég var smákrakki. Þá var héraðslæknir í hverju krummaskuði, við þekkjum það öll og vitum það öll sem vita viljum. Þegar ríkissjóður bólgnar út og við verðum ríkari og höfum það betra eru seglin dregin saman í svona þjónustu, lífsnauðsynlegri þjónustu.

Mér finnst þetta stórkostlegt skref aftur á bak og ég get ekki kvittað upp á svona vinnubrögð, ekki fyrir fimm aura. Ég vil sjá lausnir, ekki bara einhverja draumsýn. Ég skora á hæstv. heilbrigðisráðherra að nýta það kerfi sem við höfum hérna heima og reyna að koma í veg fyrir að borgurum okkar sé að mismunað eftir búsetu. Það þarf að tryggja öryggi allra landsmanna, hvar sem þeir búa, þegar kemur að heilbrigðisþjónustu og fyrstu hjálp.