149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[16:45]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég hjó eftir því að í málflutningi hv. þm. Höllu Signýjar Kristjánsdóttur vísaði hv. þingmaður í það að heilbrigðisstefnunni fylgdi aðgerðaáætlun. Að því leytinu til var hv. þingmaður að benda á að á þeim forsendum væri ekki verið að minnast á með hvaða hætti ætti að ná fram þeim markmiðum. Eins og hv. þm. Inga Sæland minntist réttilega á fer ekki fyrir þessum markmiðum hérna inni.

En hefði þá ekki verið eðlilegt, hv. þingmaður, að eitthvað af aðgerðaáætluninni væri inni í þessari stefnu þannig að þegar við lesum stefnuna sjáum við hvernig á að ná þessum mikilvægu markmiðum? Eins og t.d. bara mönnun í heilbrigðisþjónustunni, hinn alvarlegi skortur á hjúkrunarfræðingum. Nú eru kjarasamningar að losna hjá þessum stéttum og þarna er náttúrlega kjörið tækifæri til að bæta úr því. Vitað er að hundruð menntaðra hjúkrunarfræðinga starfa ekki í heilbrigðisgeiranum heldur við ýmis önnur störf.

Það er nauðsynlegt að reyna að ná þessum aðilum inn í heilbrigðisgeirann að nýju. Vissulega eru þarna göfug markmið eins og fólkið í fyrirrúmi, en ég er þeirrar skoðunar að þarna þyrfti að vera einhver áætlun um með hvaða hætti styrkja á mönnunina í heilbrigðisþjónustunni.

Ef hv. þingmaður vildi aðeins koma inn á það hvort hún er sammála mér í því að þarna þurfi að vera einhvers konar leiðir sem séu færari. Það sé ekki nóg að hafa bara markmið og engar leiðir.