149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[17:03]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni ræðuna. Hann kom inn á mjög athyglisverðan hlut sem ég sé, þegar ég fer að hugsa aftur, að var eiginlega lítið ræddur í þessari heilbrigðisstefnu og það eru réttindi sjúklinga. Það hefðu átt að vera nokkrar blaðsíður í svona stefnu, bara um þessi réttindi.

Er hann sammála mér í því að algjörlega sé brotið á réttindum fólks þegar það gleymist á biðlistum mánuðum eða árum saman? Þar er ekkert forgangsraðað eftir ástandi fólks, hver á rétt á því að vera fyrstur, heldur virðist vera að hver og einn sé á biðlista hjá viðkomandi lækni. Þar af leiðandi er erfitt að fylgjast með því hver þörfin er. Þetta hefði þurft að vera í stefnunni, að skilgreina svona hluti almennilega strax.

Síðan er það stefnan sjálf, mér heyrist á hv. þingmanni að honum finnist hún hálfþunn. Þá vil ég líka spyrja hvernig honum lítist á stefnuna í samhengi við þörfina úti á landi. Þar kemur í ljós að mjög illa er komið fyrir litlu sveitarfélögum sem áður höfðu einhverja þjónustu, en virðast ekki hafa nokkra þjónustu í dag. Hvað telur þingmaður að þurfi að vera í þessari stefnu til þess að tryggja það að þessi þjónusta dugi fyrir alla landsmenn?