149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[17:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Já, ég vitnaði einmitt til athugasemda Læknafélags Íslands þar sem þeir tala m.a. um að það sé sérkennilegt að hvergi sé minnst á réttindi sjúklinga í þessari heilbrigðisstefnu. Við þurfum að sjálfsögðu sem viðskiptavinir heilbrigðisstofnanirnar eða sem sjúklingar, íbúar þessa lands, að sjá hver stefnan er varðandi það sem snýr að mannlega þættinum eða þætti sjúklinganna, hvaða þjónustu við eigum t.d. rétt á. Hvernig lýsa á henni í framtíðarstefnunni.

Maður veltir fyrir sér hvort ekki eigi að koma fram með stefnu sem hafi það að markmiði að hver sjúklingur þurfi ekki að bíða nema svo og svo langan tíma eftir þjónustu, að það sé stefnan og síðan komi markmiðin: Við ætlum að ná því með þessum hætti og það verður fjármagnað svona. Það er dæmi sem maður hefði haldið að væri gott að koma fram með í svona stefnu. Það kann að vera að við munum sjá eitthvert annað plagg þar sem markmiðslýsing kemur fram. En eins og þetta er núna tökum við undir með Læknafélaginu, það er ekkert fjallað um þessi réttindi.

Stefnan er þunn, sagði hv. þingmaður. Það sem ég legg áherslu á er að á meðan við höfum ekki markmiðin og hvernig við ætlum að ná þeim og hvernig þau eru fjármögnuð er stefna í sjálfu sér ekkert nema yfirlýsing eða orð á blaði. Við getum sett alls konar falleg orð á blað. Við getum spekúlerað um hitt og þetta, en til þess að ná því fram þarf að vera eitthvað haldfast. Eitthvað sem við getum bent á og sagt: Þarna erum við með markmið og við ætlum að ná því svona þetta ár og fjármagna það með þessum hætti. Þannig held ég að við myndum flest vilja sjá heilbrigðisstefnuna líta út. Það virðist ekki hafa verið reynt í þessu tilviki, án þess þó að ég geti fullyrt það.